151. löggjafarþing — 55. fundur,  16. feb. 2021.

áfengislög.

504. mál
[21:22]
Horfa

Líneik Anna Sævarsdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra andsvarið. Ég held að þetta sé mjög mikilvæg spurning: Hver eru áhrif af fjölgun útsölustaða? Þýðir það endilega aukið aðgengi eða er það breyting á aðgengi? Á sama hátt er það sem ég er að ræða varðandi þetta frumvarp í rauninni að greina jákvæð og neikvæð áhrif. Er aðgengið að aukast með þeim hætti sem rannsóknirnar sem við höfum sýna fram á að hefur neikvæð áhrif? Ég held að ég hafi ekki rætt það áður hér í ræðustól en einhvers staðar í umræðu um áfengisfrumvörp sem við höfum haft til umfjöllunar fyrr er einhver skurðpunktur í áhrifum af mjög takmörkuðu aðgengi að áfengi og áfengisbanni og síðan vel stýrðu aðgengi. Þannig að það að selja áfengi frá brugghúsum með umgjörð sem er trygg tel ég raunar koma til greina. En ég hef bara ekki áttað mig á því hvort sú umgjörð, sem lögð er til í þessu frumvarpi, er nægilega trygg.