151. löggjafarþing — 55. fundur,  16. feb. 2021.

áfengislög.

504. mál
[21:35]
Horfa

Ari Trausti Guðmundsson (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Nú er ég sennilega ekki einn þeirra sem bera nokkrar brigður á vísindaleg rök fyrir, við skulum segja, auknu aðgengi á annan bóginn og á hinn bóginn vandamálum sem fylgja því að nota alkóhól. Ég er heldur ekki andsnúin þessu frumvarpi frá A til Ö. En ég hef mjög gaman af því í sjálfu sér þegar ég heyri þingmenn eins og hv. þingmann ræða um einhver rök og eitthvert jafnræði og annað slíkt þegar kemur að þessari tilteknu vöru. Við skulum bara ímynda okkur hvernig við höfum umgengist tóbakið. Hvað reglur höfum við sett núna um sölu tóbaks, neyslu tóbaks og allt þetta? Og af hverju er það? Vegna þess að þetta er heilsuspillandi efni. Það er auðvitað alkóhól líka, það vitum við öll. Hvers vegna skyldum við þá ekki hugsa okkur vel um í hvert einasta skipti þegar við slökum á? Myndum við fara að einhverju leyti til baka með eitthvað af þeim reglum sem við höfum um sett um tóbak og sölu þess? Ég held ekki.

Þannig að ég ætla einfaldlega að spyrja hv. þingmann: Eigum við að umgangast alkóhól eins og tóbak eða eigum við að umgangast alkóhól eins og mjólk?