151. löggjafarþing — 55. fundur,  16. feb. 2021.

áfengislög.

504. mál
[21:52]
Horfa

dómsmálaráðherra (Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir) (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrir góða umræðu sem þetta mál hefur fengið í þinginu í kvöld og hefur verið tæpt á ýmsu. Frumvarpið er auðvitað afar lítið skref og ég tek undir með hv. þingmönnum sem komu inn á það. Ég vona að nefndin skoði vel í vinnu sinni, hv. allsherjar- og menntamálanefnd, hvort ekki eigi að fella aðrar áfengistegundir þar undir, aðra framleiðslu sem fram fer með svipuðu sniði og um er rætt í frumvarpinu, til að gæta líka að því jafnræði. Ég bind miklar vonir við það.

Öll svona lítil skref í frelsisátt hafa þurft dugmikið baráttufólk sem hefur kosið að treysta því að Íslendingar geti ráðið lífi sínu sjálfir. Það er auðvitað ekki þannig, eins og einhverjir vilja vera láta, að við séum að tala um áfengi sem algerlega hefðbundna neysluvöru. Það hefur samt verið ýjað að því að með þessu frumvarpi sé verið að ýta undir skaðleg áhrif af áfengi; veikindi, faraldra, berkla og ofbeldi. Ég frábið mér svoleiðis málflutning um málið. Þetta er afar lítil breyting um að færa sölu og styðja íslenska framleiðendur. Ég veit vel hversu skaðleg áhrif áfengi getur haft, hvort sem það eru þeir sem neyta áfengis í óhófi sem líða fyrir neysluna eða fjölskyldur þeirra. Undir slíka óhamingju myndi ég aldrei ýta og það er mín bjargfasta trú að þetta frumvarp gerir það ekki. Það er líka mín bjargfasta trú að þrátt fyrir að frumvarpið væri víðtækara og fæli í sér aðeins stærri breytingar, eins og ég lagði til í upphafi, myndi það heldur ekki gera það. Ég frábið mér slíkan málflutning en það þýðir ekki að það megi ekki ræða lýðheilsu. Og hvað er það sem virkar í raun og veru í þeirri baráttu? Eru það forvarnir og fræðsla eða eigum við að loka áfengisverslun ríkisins? Hvaða breytingar er eðlilegt að gera? Rættust spár manna í ræðum sem voru haldnar hér fyrir 32 árum um allar þær rosalegu breytingar sem þeir töldu að yrðu á áfengisstefnu og hegðun þjóðarinnar? Það held ég ekki.

Frumvarpið snýst um að gæta að jafnræði, styðja við íslenska aðila og það er mín einarða skoðun að það sé æskilegra að þessi starfsemi sé á yfirborðinu og undir skýru regluverki og fari fram með löglegum hætti. Í dag fer allt of mikið af áfengissölu fram undir yfirborðinu, áfengissölu þar sem aðilar koma sér hjá íslensku regluverki með því að senda áfengi erlendis og svo hingað til baka, af því að lögin mismuna íslenskum aðilum. Við verðum að bregðast við því og hafa íslenska löggjöf eðlilega. Þrátt fyrir mismunandi sjónarmið milli þeirra sem vilja frjálsræði í þessum málum og þeirra sem vilja mjög aðhaldssama stefnu í þessum málum þá verðum við samt að gæta að jafnræðissjónarmiðum og eðlilegri samkeppnisstöðu íslenskra aðila. Ég tel að bæði með því frumvarpi sem liggur hér fyrir, að veita handverksbrugghúsum leyfi til sölu á framleiðslustað, sem og þeirri breytingu sem ekki komst hérna inn í þingið, um að jafna stöðu íslenskra aðila sem vilja selja vöru sína í gegnum netið, séum við einmitt að fara á milli þessara sjónarmiða. Við erum ekki að hrófla við stöðu áfengisverslunar ríkisins en ég tel að sama skapi að tekjum af þessum viðskiptum sé með þeim hætti betur haldið innan lands með tilheyrandi jákvæðum áhrifum fyrir íslensk fyrirtæki, fyrir vernd starfa, fyrir sköpun skatttekna sem er þá hægt að nýta enn frekar í forvarnir.

Síðan er mikið talað um framboðsaukningu. Framboðsaukningin af þessu frumvarpi yrði óveruleg. Það myndi frekar leiða til þess að sölunni yrði dreift og viðskiptin færðust til innlendra aðila, til innlendrar framleiðslu sem Íslendingar kaupa mun minna af en nágrannaþjóðirnar.

En grunnurinn í þessu öllu er að auka jafnræði á áfengismarkaði, að styðja við litla íslenska aðila. Ég held, það er mín trú og ég vona það miðað við þessa umræðu sem mér fannst nokkuð jákvæð í garð frumvarpsins, að þetta geti orðið að veruleika og verði mjög mikilvægt fyrir þessa aðila, sérstaklega á þessum tímum, sem hafa reitt sig mikið á ferðamenn. Ég endurtek að það er mín einlæga trú að við eigum að treysta fólki til að taka frekari ákvarðanir um eigið líf og að það þurfi að vera afskaplega góð rök fyrir því að skerða valfrelsi almennings í þessum málum sem og öðrum. Ríkisvaldið eigi ekki að ákveða hvað og hvort og hvernig landsmenn neyta drykkjarfanga og það er ekkert sem kallar á að reglur hér á landi séu mun strangari en annars staðar. Það er nauðsynlegt að stíga skref sem þessi. Þau eru mikilvæg. Að mínu mati mættu þau vera fleiri, jafnvel þótt þau séu smá. Grundvöllurinn er að styðja íslenska aðila, íslenska verslun og að þeir standi jafnfætis. Við erum alltaf hér í þessum ræðustól að tala um það að við viljum að Ísland skari fram úr í stofnun fyrirtækja, að Ísland sé framúrskarandi staður þar sem auðvelt er að stofna fyrirtæki, þar sem regluverk er einfalt, þar sem við erum samkeppnishæf. Þessi fyrirtæki upplifa ekki slíkt regluverk.

Virðulegi forseti. Umræðan hér í þinginu var góð. Þó að umræða um áfengismál geti oft farið í ákveðnar kreddur, eins og höfum séð í gegnum tíðina, þá vona ég að hv. allsherjar- og menntamálanefnd beri gæfu til að taka málefnalega umræðu um frumvarpið, byggða á staðreyndum og eðlilegum viðhorfum til íslenskra aðila sem standa í þessum rekstri, sem við verðum að mínu mati að gera betur við.