151. löggjafarþing — 55. fundur,  16. feb. 2021.

ráðstafanir gegn umhverfismengun af völdum einnota umbúða fyrir drykkjarvörur.

505. mál
[22:08]
Horfa

umhverfis- og auðlindaráðherra (Guðmundur Ingi Guðbrandsson) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrirspurnina. Eins og kemur fram í greinargerð með frumvarpinu er áætlað að í veitingarekstri í brottfararsal Leifsstöðvar hafi árið 2018 fallið til u.þ.b. 2 milljónir eininga. Að mestu leyti er um að ræða innlenda framleiðslu. Talið er að þessar umbúðir verði að stórum hluta eftir í landinu og skili sér til Endurvinnslunnar sem þá þarf að greiða skilagjald. Þá hafa þessir aðilar í rauninni ekki lagt það á. Með þessu ákvæði frumvarpsins er því í rauninni verið að bæta rekstrargrundvöll Endurvinnslunnar. Eins og þetta er í dag þurfa þau hjá Endurvinnslunni að greiða þetta út til þessara aðila án þess að það hafi komið inn í kerfið á hinum endanum. Ekki er talið að þetta hafi áhrif á ríkissjóð. Ég er ekki alveg klár á því hvort hv. þingmaður var að spyrja að því líka. Það er ekki talið að þetta hafi áhrif á ríkissjóð en þetta ætti að bæta rekstrargrundvöll Endurvinnslunnar.