151. löggjafarþing — 55. fundur,  16. feb. 2021.

ráðstafanir gegn umhverfismengun af völdum einnota umbúða fyrir drykkjarvörur.

505. mál
[22:12]
Horfa

umhverfis- og auðlindaráðherra (Guðmundur Ingi Guðbrandsson) (andsvar):

Hæstv. forseti. Í fyrsta lagi vegna spurningar um úrgang úr flugvélum þá fer hann allur í brennslu og ástæðan er að vegna smitvarna á allur blandaður úrgangur úr millilandaflugi að fara í brennslu. Ég hef oft spurt mig sjálfur að því hvort það sé algjörlega nauðsynlegt. En mér skilst að það sé svo, alla vega miðað við hvernig þetta er í dag.

Síðan varðandi endurvinnslu á gleri erum við í dag að endurnýta gler í rauninni. Við eigum að vera að endurvinna um 60% af öllu gleri sem til fellur á landinu en við erum í rauninni ekki að endurvinna neitt. Það er með þessu frumvarpi sem ég vil ná að breyta þessu hvað varðar drykkjarvörurnar. Síðan er þá frumvarp sem núna hefur verið í samráðsgátt sem tekur á öðrum glerumbúðum sem myndu fara í gegnum Úrvinnslusjóð. Þegar þetta er lagt saman er ég sannfærður um að við munum standa við markmið okkar varðandi endurvinnslu á gleri og er nú tími til kominn að mati þess sem hér stendur. Eini raunhæfi kosturinn að svo stöddu er hins vegar útflutningur til endurvinnslu. Það er þó ekki útilokað að möguleikar opnist hérlendis síðar. Við skulum vona það og að unnið verði að því líka.

Svo langar mig bara að segja almennt að lokum að ég þakka hv. þingmanni fyrir þessa góðu umræðu eins og alltaf um úrgangsmálin og ég hyggst leggja fram frumvarp á vorþingi sem tekur með heildstæðari hætti á úrgangsmálum. Við erum nýbúin að birta líka drög að nýrri úrgangsstefnu í samráðsgátt þannig að það er virkilega verið að taka til í úrgangsmálum um þessi dægrin.