151. löggjafarþing — 55. fundur,  16. feb. 2021.

ráðstafanir gegn umhverfismengun af völdum einnota umbúða fyrir drykkjarvörur.

505. mál
[22:15]
Horfa

Ari Trausti Guðmundsson (Vg):

Herra forseti. Ég ætla ekki að lengja þessa umræðu mikið, umræðan um umhverfisvernd er í sjálfu sér orðin svo þverpólitísk að við þingmenn erum að mestu leyti sammála, held ég. Ég finn hins vegar til skyldunnar sem annar varaformaður umhverfis- og samgöngunefndar að segja eitthvað um þetta mál vegna þess að plastmengun, ef maður verður stóryrtur og gefur henni bara einkunn, er einfaldlega orðin að böli á heimsvísu. Hér á landi hefur þetta að nokkru leyti snúist um einnota umbúðir, ekki bara um mat heldur vörur yfir höfuð. Við vitum að þegar við erum að kaupa eitthvað þá er nánast helmingurinn eða meira af umbúðum plast en ekki einhvers konar pappír sem er þá oft endurunninn. Þetta fylgir iðnaði hjá okkur. Þetta fylgir landbúnaðinum þar sem að vísu er verið að reyna að endurvinna mestallt rúlluplast sem til fellur. Þetta fylgir sjávarútvegi, fiskeldinu, útflutningnum o.s.frv. Ég bý núna á byggingarsvæði. Þar flýgur plastið úti um allt vegna þess að byggingarvörum, sem eru notaðar bæði inni í byggingum og úti, fylgir óhemjumikið magn af plasti. Mikið af þessu, af því að tveir þriðju hnattarins er sjór, lendir þar og rannsóknir hafa sýnt t.d. hér við land að af 74 kræklingasýnum sem voru tekin hringinn í kringum landið fundust örplastagnir í 72 sýnum. Það segir okkur ákaflega mikið um mengun hér við land í sjó af völdum plasts.

Þegar á að hyggja að mótvægisaðgerðum snýst það að hluta til um flokkun, bæði að hirða plastið og flokka það og svo náttúrlega endurvinna. En þetta snýst að einhverju leyti líka um umgengnina sjálfa, hvernig við umgöngumst borgina, við sem þar eigum heima, þéttbýlið, sveitir landsins o.s.frv. Ég ætla hiklaust að halda því fram að það er mjög algengt að fólk kasti frá sér plasti og þeir sem eru að vinna við eitt og annað hyggi alls ekki að því að ganga frá eða koma plasti frá sér á réttan máta. Það þarf ekki annað en að skoða garða, trjálundi, götur og torg, meðfram vegum á landinu og fjörur til að vera mér sammála. Til að breyta þessu er farin ein leið af mörgum sem eru þeir fjárhagslegu hvatar sem við erum að fjalla um hér. Þeir gera sannarlega gagn. Mér rennur alltaf til rifja þegar maður heyrir andmæli gegn þessum hvötum — þeir eru kallaðar álögur, íþyngjandi o.s.frv., þetta eru þau lýsingarorð sem gjarnan fylgja þessu — því að árangurinn af þeim er sannanlegur um víða veröld þar sem þetta er nýtt að einhverju marki. Ég vil í staðinn nota orðalag eins og að „stuðla að“, „hvetjandi“, jákvætt orðalag um þetta sem menn kalla jafnvel græna skatta en í raun og veru er þetta mjög áhrifarík leið til að hafa áhrif á gangverk efnahagskerfisins og hugsunarhátt fólks og hugsunarhátt þeirra sem ráða fyrir fyrirtækjum o.s.frv. Hvort sem það heitir skilagjald, urðunarskattur eða eitthvað annað þá gerir það að verkum að það eflir umhverfisvitund, eykur skil á úrgangi, í þessu tilviki plasti, og hvetur okkur til að nýta hráefni betur.

Það beinir sjónum að hringrásarhagkerfinu. Ég spyr: Heyrðum við það orð fyrir áratug síðan? Þetta er að verða allsráðandi í umræðu mjög víða, það er tímanna tákn, og sýnir að við erum æ fleiri farin að skilja það að auðlindir jarðar eru takmarkaðar og endurvinnsla og endurnýting er í raun og veru lykillinn að því að mannkynið geti átt bjarta framtíð næstu áratugi og aldir.

Takmörkun á nýtingu eða notkun plastvara og hvati til að endurnýtingar og endurvinnslu hefur verið keppikefli þessarar ríkisstjórnar að mínu mati. Ég minni á eins konar aðgerðaáætlun í 18 liðum sem við samþykktum fyrir tveimur, þremur árum og hefur stuðlað að því að búið er að breyta reglum í búðum, búið er að breyta reglum um hvað má selja, hvað má afgreiða ókeypis eða veita ókeypis og hvað þarf að rukka fyrir. Allt er þetta liður í því að minnka bölið og líta á plast sem auðlind. Hér er nú þegar þróun í þá átt, bæði í nýsköpun og hjá fyrirtækjum eins og Pure North Recycling, eins og það heitir, í Hveragerði, þar sem verið er að vinna mjög jákvæð framfaraskref í þessu. Gámaþjónustufyrirtæki, Sorpa og önnur slík fyrirtæki koma inn í þetta líka og ber að nefna það.

Ég ætla í sem fæstum orðum að fagna því að hér sé verið að herða á skilum á drykkjarílátum. Ég vil gjarnan minna á það að gler hefur reyndar verið mulið og nýtt í malbik, það hefur ekki verið endurunnið sem við köllum, en það hefur verið nýtt á þann hátt að því hefur verið blandað í malbik í bland við steinefnin sem notuð eru í malbiki. Það er ein leið til þess a.m.k. að gera eitthvað jákvætt við það.

Ég endurtek að ég fagna frumvarpinu og ég býst við því að það hljóti skjóta afgreiðslu í meðförum hv. umhverfis- og samgöngunefndar.