151. löggjafarþing — 56. fundur,  17. feb. 2021.

almenn hegningarlög.

267. mál
[13:53]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Herra forseti. Ég fagna þessu framfaramáli og fagna samstöðunni sem er um þetta framfaramál sem snýst um að taka á kynferðislegu og kynbundnu ofbeldi og áreitni í stafrænum heimi. Það frumvarp sem við afgreiðum hér byggir á mikilli greiningarvinnu og samráði. Og það er alveg hárrétt sem fram kom hjá þeim hv. þingmanni sem talaði á undan mér, þau hafa verið mörg sem hafa léð þessu máli stuðning sinn, talað fyrir því og barist fyrir því hér í þingsal sem og úti í samfélaginu. En þetta sýnir eindreginn vilja Alþingis til að taka á dekkri hliðum tækniþróunar og taka í raun á kynferðislegu ofbeldi og áreitni. Ég vil að lokum líka þakka hæstv. dómsmálaráðherra fyrir að leiða þetta mál til lykta með farsælum hætti í samráði við hv. allsherjar- og menntamálanefnd. Ég segi já.

(Forseti (SJS): Það er að vísu ekki nafnakall.)

Var ég ekki að gera grein fyrir atkvæði?

(Forseti (SJS): Jú.)