151. löggjafarþing — 56. fundur,  17. feb. 2021.

almenn hegningarlög.

267. mál
[13:54]
Horfa

dómsmálaráðherra (Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir) (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. allsherjar- og menntamálanefnd fyrir vinnu hennar við gerð þessa frumvarps og öllum þeim sem unnið hafa að þessum breytingum. Lagaumhverfið verður auðvitað fyrst og fremst að endurspegla samfélagið sem við búum í og það hefur ekki gert það hvað varðar sendingu nektarmynda eða hótana um slíkt, en það mun gera það eftir að þessi löggjöf er samþykkt. Því er ég mjög glöð að sjá þann mikla stuðning sem málið er að fá hér í þinginu. Það viðhorf að sending nektarmynda feli í sér sjálfkrafa samþykki fyrir opinberri dreifingu efnisins er jafn úrelt viðhorf og að konur sem birta af sér kvenlegar sjálfsmyndir séu að kalla yfir sig kynferðislega áreitni.