151. löggjafarþing — 56. fundur,  17. feb. 2021.

Evrópuráðsþingið 2020.

493. mál
[14:20]
Horfa

Smári McCarthy (P) (andsvar):

Herra forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þingmanni fyrir góða yfirferð á störfum nefndarinnar og Evrópuráðsþingsins á síðasta ári. Það er augljóst að þarna býr mikil þekking og góð starfsreynsla að baki.

En mig langar til að nota tækifærið og spyrja hv. þingmann, svona í ljósi þess að nú horfum við fram á við og Ísland gegnir formennskuhlutverki, hvort hv. þingmaður sjái fyrir sér eitthvað sérstakt sem mætti bæta annaðhvort í skipulagi Evrópuráðsþingsins sem slíks, eða Evrópuráðsins heilt yfir, eða í því hvernig aðkoma Íslands að bæði þinginu og Evrópuráðinu í heild sinni er háttað. Þó að þetta sé mikilvæg stofnun og í rauninni gríðarlega vanmetin þá er ekkert fullkomið og alltaf tækifæri til að bæta.

Ég veit að það er kannski fullbratt að reyna að ná svona djúpu efni í stuttu andsvari, en á stjórnarnefndarfundum 12.–13. og 22.–23. október, sem ég veit að hv. þingmaður sat, var fjallað um ályktanir og tilmæli um lýðræðislega stjórn á gervigreind, notkun gervigreindar í dómskerfinu og mismunun í gervigreind. Ég veit ekki hvort það sé raunhæft en gæti hv. þingmaður mögulega hnýtt við einhverja punkta um hvað bar þar hæst? Þetta eru augljóslega atriði þar sem við ættum að vera vel með á nótunum.