151. löggjafarþing — 56. fundur,  17. feb. 2021.

Alþjóðaþingmannasambandið 2020.

494. mál
[14:45]
Horfa

Smári McCarthy (P) (andsvar):

Herra forseti. Mig langaði til að spyrjast aðeins fyrir um nokkur atriði sem komu fram í skýrslunni. Það fyrsta er það sem segir hér í þriðju efnisgrein skýrslunnar um að öllum þingmönnum aðildarríkjanna hafi boðist að taka þátt í fjarfundum og þá er verið að vísa í fjölmarga fjarfundi um heimsfaraldurinn og áhrif á ýmsa málaflokka. Er það rétt skilið hjá mér að hér sé ekki bara átt við þingmenn sem eru meðlimir í Íslandsdeild Alþjóðaþingmannasambandsins heldur alla þingmenn? Ef svo er væri forvitnilegt að vita hvort þessu hafi á einhvern hátt verið komið á framfæri við þingmenn almennt á Alþingi. Ég hef ekki orðið var við það og spyr hvort það sé bara misskilningur að um sé að ræða alla þingmenn eða hvort um einhvers konar handvömm sé að ræða að gleymst hafi að boða alla hér á Alþingi.

Mig langar líka að spyrja: Það eru nokkrar yfirlýsingar frá forseta Alþjóðaþingmannasambandsins sem eru taldar upp alveg í restina. Nú veit ég að yfirlýsingar forseta eru í fyrsta lagi ekki bindandi fyrir þjóðþingin en þær endurspegla samt sem áður mikilvæg pólitísk mál hverju sinni. Það eru einkum tvær yfirlýsingar sem mig langaði til að fá einhvers konar ágrip af hjá hv. þingmanni ef mögulegt er. Annars vegar er það um ástandið í Malí og hins vegar um útrýmingu kjarnorkuvopna, vegna þess að hin málin segja sig svolítið sjálf. Það gæti verið ýmislegt í hinum tveimur málunum og gæti verið forvitnilegt að vita hvað það er.