151. löggjafarþing — 56. fundur,  17. feb. 2021.

lögreglulög.

135. mál
[17:27]
Horfa

Flm. (Karl Gauti Hjaltason) (M):

Herra forseti. Ég þakka auðvitað hv. þm. Bjarkeyju Olsen Gunnarsdóttur fyrir afdráttarlausan stuðning hennar við þetta mál, kjarabætur til handa lögreglu og að veita lögreglumönnum verkfallsréttinn að nýju, enda var hún fyrsti flutningsmaður að þessu sama máli hér á 145. löggjafarþingi þegar það var lagt fram í annað sinn. Hv. þingmenn Vinstri grænna lögðu þetta mál fram í tvígang á þeim tíma.

Það er athyglisvert að lesa yfir ræður þingmanna, sérstaklega frá 144. þingi, varðandi þetta mál vegna þess að þá kemur í ljós að þingmenn úr þeim flokkum sem nú sitja í stjórn, sitja við stjórnvölinn hér á þingi og í landinu, þar á meðal hv. þingmenn Vinstri grænna og hv. þingmenn Sjálfstæðisflokksins, virðast á þeim tíma vera afar jákvæðir og styðja þetta frumvarp. Þess vegna ætti ekki að vera neitt því til fyrirstöðu að þetta frumvarp, sem er í sjálfu sér mjög einfalt, lagalega séð er það mjög einfalt og allt sem þarf er vilji, fari í gegn og veiti stétt lögreglumanna — sem stendur einmitt í ströngu þessa dagana við afar erfið verkefni, að takast á við harðsvíraða glæpamenn — þann sjálfsagða rétt að geta stutt kröfur sínar og fylgt þeim eftir með því að beita þessu vopni sem við veitum flestum stéttum, þ.e. að leggja niður störf til að knýja á um kjarabætur.

Eins og ég sagði í fyrri ræðu minni er það auðvitað þannig, og enginn má misskilja það, að lögreglan í heild sinni myndi aldrei leggja niður störf þó að hún færi í verkfall. Auðvitað yrði alltaf gætt að fyllsta öryggi landsmanna og samfélagsins ef slíkt væri gert, þ.e. alltaf væri haldið uppi lágmarksöryggisgæslu á vegum lögreglunnar. Mér finnst stundum í umræðunni um þetta mál að menn haldi að lögreglan færi bara öll í verkfall í heilu lagi ef það yrði uppi á teningnum. Það er alls ekki þannig, ekki frekar en með lækna eða aðrar slíkar stéttir. Auðvitað yrði nauðsynlegum verkum sinnt.

Umhverfið í þjóðfélaginu í dag er gjörbreytt frá því sem var fyrir kannski 30–50 árum. Lögreglustarfið, eins og ég nefndi í fyrri ræðu, er því allt annað núna en á miðri síðustu öld, miklu meiri kröfur, meiri tækjabúnaður, erfiðari og miklu flóknari viðfangsefni. Við verðum að styðja við bakið á þessari stétt sem er svo mikilvæg í samfélaginu. Það er kannski óþarfi að fara yfir það en starf lögreglunnar er erfitt starf. Þetta er vaktavinna. Lögreglumenn vita aldrei hvað bíður þeirra þegar þeir fara í útkall, þeir vita aldrei hvernig aðstæður eru á þeim stað sem þeir eru kallaðir út á.

Við þurfum, herra forseti, að styðja við lögregluna og veita lögreglumönnum góðan aðbúnað, góð laun og menntun og veita þeim verkfallsréttinn að nýju. Ég ber þá von í brjósti að þetta mál hljóti loksins, í sjötta skipti sem það er lagt hér fram á einhverjum átta eða tíu árum, afgreiðslu í nefnd og komi inn í þingsal og verði samþykkt. Ég veit það af minni reynslu að lögreglumenn vilja sjá þennan rétt að nýju. Lögreglumenn hafa dregist aftur úr. Sannarlega hafa lögreglumenn dregist aftur úr og það er kominn tími til að veita þessari stétt þann sjálfsagða rétt sem verkfallsrétturinn er.