151. löggjafarþing — 56. fundur,  17. feb. 2021.

minning Margrétar hinnar oddhögu.

138. mál
[17:44]
Horfa

Flm. (Karl Gauti Hjaltason) (M):

Herra forseti. Ég mæli fyrir tillögu til þingsályktunar um að heiðra minningu Margrétar hinnar oddhögu. Og hver skyldi það nú vera? Það er listakona, hérlend listakona, sem bjó og starfaði í Skálholti á Suðurlandi á seinni hluta 12. aldar og fyrri hluta 13. aldar. Ég legg þessa tillögu til þingsályktunar fram í fyrsta skipti. Mér er sönn ánægja að gera það. Efni tillögunnar er:

„Alþingi ályktar að fela mennta- og menningarmálaráðherra að heiðra minningu Margrétar hinnar oddhögu með því að reisa henni minnisvarða. Minnisvarðinn skal reistur í Skálholti verði því komið við. Ráðherra kynni áætlun þess efnis eigi síðar en á vorþingi 2021.“

Meðflutningsmenn mínir á tillögunni eru 12 auk mín úr þremur stjórnmálaflokkum. Það eru hv. þingmenn Ásmundur Friðriksson, Birgir Þórarinsson, Oddný G. Harðardóttir, Páll Magnússon, Vilhjálmur Árnason, Anna Kolbrún Árnadóttir, Bergþór Ólason, Gunnar Bragi Sveinsson, Ólafur Ísleifsson, Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, Sigurður Páll Jónsson og Þorsteinn Sæmundsson.

Herra forseti. Samkvæmt sögu Páls biskups Jónssonar var Margrét hin oddhaga prestskona í Skálholti á ofanverðum dögum biskups og var, eftir því sem sagan segir, „oddhögust allra manna á Íslandi“ um sína daga. Hvorki er vitað um föðurnafn hennar né ættir að öðru leyti.

Páll Jónsson Skálholtsbiskup, sem fæddist 1155 og dó 1211, var framkvæmdamaður mikill og listunnandi. Voru í biskupstíð hans listamenn í Skálholti sem unnu góða gripi í þágu stólsins og skreyttu helgidóminn með fögrum verkum. Margrét var í þjónustu biskups ásamt fleiri listamönnum og bjó í Skálholti ásamt manni sínum, séra Þóri.

Í sögu Páls biskups segir um biskupsstaf af tönn, sem Margrét skar fyrir Pál og var sendur Þóri erkibiskupi í Niðarósi, að hann hafi verið gerður svo haglega að „engi maðr hafði fyrr sét jafnvel gervan á Íslandi“.

Þegar steinkista Páls biskups var tekin úr jörðu og opnuð sumarið 1954 fannst í henni húnn af bagli úr rostungstönn, útskorinn í líki dýrshöfuðs og forkunnarvel gerður. Kristján Eldjárn þjóðminjavörður, sem stýrði uppgreftrinum, taldi líklegt að þarna væri á ferð verk Margrétar högu og hafa margir hallast að þeirri skoðun með honum en einnig hefur verið vakin athygli á því að form og handbragð útskurðarins bendi til þess að uppruna hans sé að leita á Bretlandseyjum.

Margrét skar út margvíslega muni fyrir biskup og hefur verið orðuð við merkisgripi frá miðöldum sem fundust árið 1831 á Ljóðhúsum í Suðureyjum, undan norðvesturströnd Skotlands. Þar kom í ljós safn haglega útskorinna taflmanna sem flestir eru úr rostungstönn en nokkrir úr búrhvalstönn. Eru 78 þeirra úr manntafli en 14 eru taldir hafa verið hnefataflsmenn.

Ekki liggur fyrir nákvæm vitneskja um fundarstað taflmannanna frá Ljóðhúsum né fundartíma. Ýmsar sögur gengu um þetta og komust á blöð og bækur, svo sem að taflmennirnir hefðu verið í fórum skipreika sjómanns sem látið hefði lífið fyrir morðvopnum gráðugra eyjarskeggja sem ágirntust gersemarnar eða að taflmannasveitin hefði fundist þegar kýr var dregin upp úr jarðfalli. Telja flestir þessar sögur og aðrar áþekkar til marks um hina frjóu sagnahefð Suðureyinga sem lifi og þrífist án þvingandi tengsla við staðreyndir og veruleika.

Óvissan um kringumstæður taflmannafundarins á Ljóðhúsum veldur því að erfitt er að henda reiður á uppruna þeirra og sögu áður en þeir komust inn fyrir dyrastaf breskra safna þangað sem þeir náðu flestir en þó ekki allir og ekki er ýkja langt síðan virðulegur hrókur úr skáksveitinni frá Ljóðhúsum var boðinn upp á listmunauppboði hjá Sotheby's í Lundúnum þar sem hann seldist fyrir 750.000 pund.

Allmargar kenningar, misjafnlega sennilegar, hafa verið viðraðar um uppruna taflmannanna góðu. Fræðimenn breska þjóðminjasafnsins, British Museum, hallast flestir að því nú að þeir séu frá Noregi og er Þrándheimur einkum talinn líklegur upprunastaður. Norsk starfssystkin þeirra bresku styðja skoðun þeirra og vísa til samsvarana í norskum listiðnaði. Danmörk og Svíþjóð hafa verið nefnd til, einnig Bretlandseyjar og Írland, og elst er hugmyndin um að íslenskur listamaður hafi lagt heiminum til þessa góðu gripi.

Tilgátan um íslenskan uppruna taflmannanna hefur fylgt þeim allt síðan þeir komu aftur til mannheima úr sinni sögulausu útlegð og vistuðust á söfnum í Bretlandi. Engum hefur tekist að færa öruggar sönnur á uppruna taflmannanna frá Ljóðhúsum og enn kvikna af og til lífleg skoðanaskipti um þessa spennandi ráðgátu.

Tveir Íslendingar, Guðmundur G. Þórarinsson, verkfræðingur og fyrrverandi alþingismaður, og Einar S. Einarsson, fyrrverandi forseti Skáksambands Íslands, leituðust við það fyrir um áratug að styrkja tilgátuna um íslenskan uppruna taflmannanna margnefndu með því að benda á að einungis í íslensku og ensku hefði verið haft biskupsheiti um taflmann og honum gefið útlit sem minnti á búnað biskups. Slíkt útlit hafa Ljóðhúsataflmennirnir og væri það glöggt merki um íslenskan uppruna þeirra. Þá benti Guðmundur á frásögn Páls sögu biskups af Margréti högu og kvað þar kominn nafnkunnan íslenskan útskurðarmeistara sem vel gæti hafa innt af hendi svo ágætt verk sem Ljóðhúsataflmennina.

Þrátt fyrir að uppruni taflmannanna hafi ekki, og verði líklega seint, staðfestur að fullu er ljóst að Margrét hin oddhaga var merk kona sem á 12. öld var talin færust allra á Íslandi í útskurði. Og enn finnast útskurðarmeistarar hér á landi. Það er ekki svo langt síðan ég heimsótti Sigríði Jónu Kristjánsdóttur á Grund, sem kölluð er Sigga á Grund, sem er færust kvenna á Íslandi og jafnvel þótt víðar væri leitað í útskurði og skoðaði marga fagra muni á heimili hennar sem hún hefur skorið út á undanförnum árum.

Við þurfum að heiðra minningu slíkra meistara og það verður best gert með því að reisa Margréti hinni oddhögu veglegan minnisvarða, helst á þeim stað þar sem hún starfaði lengst af, þ.e. í Skálholti.

Flutningsmenn telja að Íslendingum væri sómi að því að koma upp minnismerki um Margréti hina oddhögu til að heiðra minningu þessarar merku konu. Margrét hin oddhaga er ein örfárra listkvenna í veröldinni sem getið er með nafni og uppi voru á miðöldum. Flutningsmenn leggja til að minnisvarðinn verði í Skálholti, verði því við komið, þar sem Margrét starfaði í þágu biskups við iðn sína.

Að loknum umræðum um málið óska ég eftir að það gangi til allsherjar- og menntamálanefndar og fái þar góða umfjöllun og afgreiðslu.