151. löggjafarþing — 57. fundur,  18. feb. 2021.

opinberar fjárfestingar og atvinnuhorfur.

[13:06]
Horfa

Logi Einarsson (Sf):

Herra forseti. Öll heimsins umhverfismöt, hönnun og undirbúningur framkvæmda lá auðvitað alveg fyrir þegar hæstv. ráðherra gaf þessi loforð í fyrra. Nú er bara spurning hvað brást og af hverju þetta er ekki efnt af meiri þunga. Reykjavíkurborg er að taka forystu með grænu fjárfestingarplani, langt á undan ríkinu hvað varðar framsækni í opinberum grænum fjárfestingum. Ég hef staðið hér margoft og óskað eftir svörum hæstv. ráðherra við því hvort hann vilji og telji að það þurfi ekki að leggjast fastar á árar með sveitarfélögum í landinu til þess að þau geti haldið uppi sínu fjárfestingarstigi vegna þess að þau standa sögulega undir helmingi af allri opinberri fjárfestingu. Ég spyr: Kemur enn þá til greina að gera meira þar? Og ég spyr bara aftur: Hvað brást, hvað dróst, hvaða óvissuþættir voru það sem leiddu til þess að við erum ekki að ná því sem þó var lofað?