151. löggjafarþing — 57. fundur,  18. feb. 2021.

fjarskipti.

[13:14]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Nú hef ég ekki áhyggjur af því að hæstv. samgönguráðherra beiti þessu ákvæði í bráð en hins vegar verður hið óhugsandi mjög hratt hugsandi og raunverulegt ef og þegar til valda komast stjórnvöld sem eru reiðubúin til að misnota svona völd. Það þarf ekki að leita langt, það þarf ekki að leita alla leiðina til Mjanmar til að finna slík dæmi. Af og til komast til valda með lýðræðislegum hætti, eða alla vega samkvæmt því lýðræðiskerfi sem er við lýði hverju sinni, stjórnvöld sem misnota völd sín og tæknina, t.d. í Bandaríkjunum þegar Trump komst til valda. Ég vona að fæstir hér óttist það ekki. En við sjáum þróun í Ungverjalandi og Póllandi og víðar þar sem valdhyggjan er að ná mjög mikilli fótfestu. Og þetta er alltaf skýringin, skýringin fyrir svona ákvæðum er alltaf sú að hið innra ríki sé að verjast erlendri árás. En möguleikinn er fyrir hendi. Sömuleiðis þegar kemur að ófriðarástandi. Ég geri ráð fyrir því að þetta hafi verið sett á tímum kalda stríðsins þegar ófriðurinn í heiminum var kannski ekki einfaldari en skýrari en í dag. Í dag er mjög óljóst hvað hugtakið „ófriðartímar“ þýðir. (Forseti hringir.) Maður veltir fyrir sér hlutum eins og búsáhaldabyltingunni eða hryðjuverkastríðinu eða því um líku. Það eru margar leiðir til að kalla eitthvert ástand ófriðarástand (Forseti hringir.) ef viljinn er fyrir hendi hjá yfirvöldum. Þá finnst mér mikilvægt að við séum með sem minnst af ákvæðum sem (Forseti hringir.) heimila vondum stjórnvöldum að misnota slík ákvæði.