151. löggjafarþing — 57. fundur,  18. feb. 2021.

fjarskipti.

[13:15]
Horfa

samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Virðulegur forseti. Á sama hátt og hv. þingmaður segir að við þurfum að geta séð fyrir okkur að ekki séu alltaf jákvæð og skynsöm stjórnvöld við lýði á Íslandi og upp geti komið öfl sem hugsanlega myndu vilja geta beitt valdi sínu á þann hátt sem við gerum okkur ekki grein fyrir, þá skulum við líka gera okkur grein fyrir, því að þó svo að við höfum lifað núna í einhverja áratugi án kalda stríðsins og án ófriðarástands getur slíkt komið upp. Þá þurfum við auðvitað að hafa í löggjöf einhvers konar heimildir til að bregðast við. Það getur vel verið rétt hjá hv. þingmanni. Ég held að það sé skynsamlegt að menn myndu, í það minnsta í greinargerð, reyna að nálgast hvað ákvæðið fjallar um og þar með að takmarka getu þeirra sem það myndu vilja túlka í sinn hag eftir „behag“, fyrirgefið slettuna, forseti.