151. löggjafarþing — 57. fundur,  18. feb. 2021.

hálendisþjóðgarður og ferðaþjónusta.

[13:17]
Horfa

Hanna Katrín Friðriksson (V):

Herra forseti. Mig langar til að ræða við hæstv. ferðamálaráðherra um frumvarp sem liggur fyrir Alþingi nú um hálendisþjóðgarð. Það eru eðlilega fjölmargir sem láta sig málið varða, enda snýst þetta um risahagsmunamál landsmanna allra í nútíð og framtíð. Það hefur verið mikið talað um sjálfsákvörðunarvald sveitarfélaga og náttúruverndarsjónarmið í tengslum við frumvarpið en það hefur, a.m.k. framan af, farið minna fyrir umræðu um þau áhrif sem frumvarpið mun hafa á ferðaþjónustuna okkar. Við í Viðreisn höfum alla tíð talað fyrir mikilvægi þess að auðlindir landsins séu nýttar með ábyrgum hætti samfara öflugri náttúruvernd. Við viljum vernda hálendið samfara þessu sjónarmiði fyrir fólkið en ekki fyrir fólkinu. Ég held að við séum býsna mörg þar. En það verður samt að segjast eins og er að þær hafa verið margar og sterkar raddirnar úr röðum ferðaþjónustuaðila sem telja málið, eins og það er lagt fram í frumvarpinu, vega að atvinnugreininni. Nú hef ég eins og fjölmargir aðrir Íslendingar verið ferðalangur í þjóðgörðum erlendis. Ég hef notið þess mjög. Þar hafa þessir þættir farið saman samkvæmt því sem ég hef alla vega upplifað og best veit, þ.e. náttúruvernd og upplifun ferðafólks samhliða atvinnuuppbyggingu á svæðinu. Ég hefði haldið að þetta væri happafengur fyrir ferðaþjónustuna okkar en það er eitthvað í þessu máli sem virðist standa í mjög mörgum ferðaþjónustuaðilum.

Þetta mál, stofnun hálendisþjóðgarðs, er í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar, höfuðstefnuplaggi hverrar ríkisstjórnar. Mig langar að heyra frá hæstv. ferðamálaráðherra hvers vegna hún telur að mótstaðan sé með þessum hætti nú þegar vel er liðið á síðasta ár kjörtímabilsins. Hefði samráð og samvinna milli þessara ráðuneyta, ráðuneytis umhverfismála og ráðuneytis ferðaþjónustu, mátt vera annað og meira en raun hefur borið vitni? Hvað er það sem gerir að verkum að ferðaþjónustuaðilar eru jafn ósáttir og þeir eru ef marka má þessa miklu umræðu og sterku gagnrýnisraddir úr röðum þeirra? Og að lokum, herra forseti: Hvað telur hæstv. ráðherra að þetta frumvarp ríkisstjórnarinnar um hálendisþjóðgarð muni gera fyrir ferðaþjónustuna á Íslandi?