151. löggjafarþing — 57. fundur,  18. feb. 2021.

hálendisþjóðgarður og ferðaþjónusta.

[13:19]
Horfa

ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra (Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir) (S):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni þessa fyrirspurn. Það eru auðvitað ótal mörg sjónarmið sem heyra hér undir. Hv. þingmaður fókuserar á ferðaþjónustuna þannig að ég ætla að halda mig við það þrátt fyrir að einnig væri hægt að eyða dágóðri stund í að tala um þetta út frá orkunýtingu. Þetta mál er af þeirri stærðargráðu að mér finnst ekki óeðlilegt að meðgöngutíminn sé langur og að það taki jafnvel lengri tíma en plön gera ráð fyrir. Þetta er risastórt svæði. Þetta er mjög stór ákvörðun. Þetta er mikið samtal við fjölda sveitarfélaga, fjölda félagasamtaka, fjölda fyrirtækja og annarra sem nýta þetta stóra svæði í dag, orkufyrirtækja og annarra.

Ég hef heyrt í mörgum ferðaþjónustuaðilum sem eru svo sem áfram um málið, og í öðrum sem eru það alls ekki. Svo er kannski bara stór hluti sem veit ekki alveg hvernig honum á að líða með það, finnst vanta frekari svör um hvað þetta þýðir fyrir hann og fyrir rekstur hans. Við eigum nú þegar mjög mikið verk fyrir höndum almennt þegar kemur að stýringu, sérleyfum, úthlutunum á takmörkuðum gæðum, til að mynda bara í Þingvallaþjóðgarði, Vatnajökulsþjóðgarði og annars staðar þar sem við erum nú þegar með þjóðgarða eða svæði sem eru í eigu ríkisins.

Hér á dagskrá í dag er frumvarp um þessi sérleyfi, sem er í mínum huga mjög mikilvægt mál. Það helst í hendur við hvað það þýðir að búa til þjóðgarð. Vatnajökulsþjóðgarður stendur frammi fyrir stóru verkefni í úthlutunum. Komið hefur upp þegar fyrirtækin ætla að taka einhver skref að það hefur verið umdeilt og þau hafa dregið það til baka. En ég tel að fyrirtækjum finnist skorta samráð, skorta skýrari svör um hvað þetta þýðir fyrir þau. Svo er alltaf spurning hvernig fólk upplifir þetta jafnvægi sem þarf að vera til staðar á milli verndarsjónarmiða og nýtingarsjónarmiða í þjóðgarðinum. Þær spurningar og mögulega einhver tortryggni gagnvart kerfinu snúast, held ég, að hluta til um það. Svo ef maður setur það í samhengi við hvað við eigum eftir að gera í uppbyggingu, úthlutunum og öðru slíku nú þegar, óháð hálendisþjóðgarði, þá er hægt að segja: Eigum við ekki nóg eftir þrátt fyrir að bíða örlítið með þjóðgarðinn?