151. löggjafarþing — 57. fundur,  18. feb. 2021.

uppfærð markmið Íslands fyrir aðildarríkjafund loftslagssamnings Sameinuðu þjóðanna (COP26).

[14:04]
Horfa

Smári McCarthy (P):

Herra forseti. Ég trúði eiginlega ekki eigin eyrum nú rétt áðan þegar ég heyrði hæstv. umhverfisráðherra halda til haga sinni réttlætingu á því að þó svo að Ísland hefði klúðrað sínum málum hefðu öll hin löndin gert það líka. Ég hugsa að þær dýrategundir og þær lífverutegundir sem dóu út á síðasta ári séu rosalega þakklátar fyrir þetta kosmíska réttlæti.

Frá því að kjörtímabilið hófst hef ég reglulega spurt að því hvernig miði í því að draga úr losun miðað við þau plön sem hafa verið gefin út. Það er nákvæmlega ekkert mál fyrir stjórnmálamenn að lofa því að hitt og þetta muni gerast eftir níu ár, enda heil þrjú kjörtímabil þangað til. Það er ástæða til að velta því fyrir sér hvers vegna ekki er hægt að lögfesta þessi markmið til að ekki sé hægt að prútta þau niður eftir því sem dagsetningin færist nær.

Það er líka ástæða til þess að velta því fyrir sér hver staðan sé núna. 30% af tímanum frá upphafi kjörtímabilsins þangað til að dagsetningin rennur upp árið 2030 eru liðin. Höfum við náð 30% samdrætti síðan kjörtímabilið hófst? Maður myndi ætla það vegna þess að hin leiðin er að reyna að redda þessu einhvern veginn á síðustu metrunum eða kannski að prútta niður og gefa sjálfum sér afslátt.

Það hefur verið talað um það í tæp fjögur ár að það sé rosalega mikill metnaður í plönunum. Plönin komu seint. Þau koma mikið til þannig að einhvern veginn er haldið í pilsfaldinn hjá Evrópusambandinu. Við hljótum að geta gert betur. Það er eiginlega orðið of mikið bull að ætla að þessi ríkisstjórn muni einhvern veginn bjarga málunum. Við höfum því miður séð að það stendur ekki til.