151. löggjafarþing — 57. fundur,  18. feb. 2021.

uppfærð markmið Íslands fyrir aðildarríkjafund loftslagssamnings Sameinuðu þjóðanna (COP26).

[14:20]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf):

Virðulegi forseti. Í aðgerðaáætlun í loftslagsmálum er svokallaður urðunarskattur. Stefnt er að því að upphæð skattsins verði 15 kr. á hvert kílógramm af urðun almenns úrgangs. Slíkur skattur er neysluskattur og neysluskattar bitna hlutfallslega verst á þeim sem hafa takmarkaðar ráðstöfunartekjur, þ.e. fátæku fólki. Ef ætlunin er að koma á slíkum skatti þarf a.m.k. að tryggja að hann sé tekjutengdur og leggist ekki á þá sem minnst hafa á milli handanna. Í stað þess að refsa fátæku fólki fyrir að menga ættum við að hvetja það til að endurvinna. Það mætti t.d. gera með því að koma á endurgreiðslu fyrir fleiri tegundir úrgangs en bara einnota drykkjarflöskur. Markmið og stefna í loftslagsmálum er, eins og ég hef áður sagt, ágætt en það eru efndir sem við þurfum. Oft var þörf en nú er nauðsyn.

Snjóflóð, aurskriður, hitamet, kuldamet, ofsaveður, eyðing skóga, skógareldar; það er birtingarmynd loftslagsmála. Og skógareldar. Alltaf höldum við Íslendingar einhvern veginn að við sleppum við þetta en það kemur. Erum við tilbúin? Erum við búin að tryggja að þegar og ef skógareldar blossa upp á Íslandi þá ráðum við við þá? Erum við búin að búa til brunahólf? Höfum við gengið þannig frá að við séum örugg um að skógareldar eyði ekki íbúðum og híbýlum fólks? Er ekki kominn tími til að við brettum upp ermarnar og komum þessum málum í lag?