151. löggjafarþing — 57. fundur,  18. feb. 2021.

aðgerðir vegna rakaskemmda í fasteignum.

36. mál
[14:44]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf):

Virðulegur forseti. Við fjöllum um þingsályktunartillögu Pírata um aðgerðir vegna rakaskemmda í fasteignum. Flutningsmaður er hv. þm. Halldóra Mogensen. Ég er ásamt mörgum öðrum á þingsályktunartillögunni og einnig á nefndarálitinu. Þetta er hið besta mál. Það er löngu tímabært að við tökum á þessu vandamáli sem er ótrúlega viðamikið á Íslandi og því miður hefur lítill áhugi verið sýndur á að taka á því. Vonandi verður með þingsályktunartillögunni tekið til hendi og málið tekið föstum tökum.

Það tekur ekki nema 24–48 klukkustundir fyrir myglu að myndast í íbúðarhúsnæði við réttar aðstæður. Hún myndast yfirleitt í veggjum eða í undirgólfi. Fyrstu einkenni eru yfirleitt bara kvef og þá er eins gott að ónæmiskerfi viðkomandi sé virkt því að á eftir getur fylgt hnerri, kláði í húð, höfuðverkur og pirringur. En ef ekkert er að gert getur þetta enn versnað og það til muna. Fyrir þá sem eru viðkvæmir getur orðið þyngdartap, húðkláði, niðurgangur, síþreyta, þeir hósti blóði í verstu tilfellum og minnistap verður. Þetta sýnir svart á hvítu hversu alvarlegt mygluvandamálið getur verið. Það segir okkur að við höfum eiginlega verið sofandi á þessu sviði og sérstaklega er varðar skólahúsnæði. Það segir sig sjálft að börn eru sérstaklega viðkvæm fyrir myglu og gróum hennar, vegna þess að ónæmiskerfi barna er ekki búið að aðlaga sig nóg að þessu vandamáli.

En orsakir í þessum málum er að finna í byggingum. Því er eiginlega sorglegt til að vita að vandamálið sé meira að segja til staðar í nýbyggingum. Og hvers vegna er það til staðar í nýbyggingum? Jú, því miður er flýtirinn það mikill og regluverkið þannig að það virðist gjörsamlega happa og glappa hvort farið er að lögum og byggingarnar byggðar á réttan hátt. Í mörgum tilfellum virðist það vera að sá sem á að hafa eftirlitið er sjálfur byggingaraðilinn eða tengdur honum. Það er auðvitað eitt af þeim vandamálum sem við þurfum og erum vonandi að leysa þannig að Húsnæðis- og mannvirkjastofnun hafi öll ráð í hendi sér til að sjá til þess að svona vandamál verði undantekning, algjör undantekning, og eftirlitið verði síðan þannig að ef þetta kemur í ljós verði hægt að grípa inn í það alveg á stundinni.

Þetta er mjög knýjandi mál. Tjón á húsnæði getur verið gífurlega kostnaðarsamt en í mörgum tilvikum er ekki hægt að bæta heilsutjónið sem einstaklingar verða fyrir vegna myglunnar. Það er kostnaðarsamt að þurfa að lagfæra húsnæði og einnig fyrir þjóðfélagið ef fólk dettur út af vinnumarkaði eða verður á annan hátt óvinnufært og jafnvel ófært um að hugsa um sjálft sig vegna afleiðinganna sem þetta getur valdið. Maður hefur heyrt ótrúlegar sögur af því hvernig fólk hefur farið út úr þessu vandamáli.

Þess vegna eru það líka gleðitíðindi að verið sé að reyna að finna upp nýjar aðferðir í byggingargeiranum. Eitt af því sem hefur sýnt góðan árangur gegn myglu er hampurinn sem er notaður. Þar virðist myglan ekki geta náð sér upp. Við höfum því lausnir og við eigum að nota þær. Við eigum að sjá til þess á allan hátt að hafa regluverkið þannig að það sé algjörlega á tæru að svona hlutir gerist ekki, að húsnæði sé t.d. rangt byggt eða sé jafnvel ekki viðhaldið, eins og við höfum orðið vör við, og að ekkert eftirlit skuli vera. Jafnvel þegar tveir einstaklingar búa í parhúsi og annar aðilinn vill koma húsi sínu í lag, hafa allt á hreinu og passa upp á alla hluti getur hinn aðilinn látið það grotna niður og valdið stórtjóni með myglu og öðru. Það er eitthvað að í okkar kerfi meðan við látum þetta viðgangast.

Ég vona heitt og innilega að þegar þingsályktunartillagan fer til ráðherra verði sem fyrst farið að vinna eftir henni og þá verði svona hlutir teknir föstum tökum og séð til þess að ekki verði hægt, hvorki vegna slóðaskapar né annars, að hafa húsnæði þannig úr garði gert að það geti valdið gífurlegu tjóni á heilsu fólks. Eins og ég hef áður komið inn á getur fjártjónið verið rosalega mikið og valdið líka óbætanlegu tjóni fyrir viðkomandi sem kannski er nýbúinn að kaupa sér húsnæði og ræður ekki við þær viðgerðir sem þurfa að fara fram.

Þetta er hið besta mál og ég styð það heils hugar eins og hefur komið fram. Ég vona heitt og innilega að það fái góðan framgang og tillagan verði samþykkt.