151. löggjafarþing — 57. fundur,  18. feb. 2021.

aðgerðir vegna rakaskemmda í fasteignum.

36. mál
[14:51]
Horfa

Ólafur Þór Gunnarsson (Vg):

Herra forseti. Við ræðum hér tillögu til þingsályktunar sem er flutt af hv. þm. Halldóru Mogensen og öðrum þingmönnum Pírata auk hv. þm. Vilhjálms Árnasonar. Þetta er mikilsvert mál og ég kveð mér hér hljóðs m.a. vegna þess að ég er einn af þeim sem skrifa undir nefndarálitið. Þetta er mikilvægt mál og eins og nokkrir hv. þingmenn hafa komið inn á hefur þetta nokkuð verið í umræðunni að undanförnu og hefur aðeins verið komið inn á samfélagsumræðuna sem tengist þessu.

Hér í þingsölum held ég að mér teljist rétt til að þessi mál hafi fengið svolítið flug, m.a. með skýrslubeiðni hv. þm. Álfheiðar Ingadóttur árið 2018 frekar en 2019 ef ég man rétt, og ég var svo lánsamur að fá að vera með henni á þeirri beiðni. Þar er spurt eftir mörgum þeim atriðum sem verið er að biðja ráðherra að taka á í þessari tillögu. Það er nefnilega að verða, ég held að það sé óhætt að segja það, nokkurs konar vitundarvakning í samfélaginu gagnvart þessum málum. Það hefur a.m.k. undanfarin sex til átta ár verið ítrekaður fréttaflutningur af því að húsnæði, ýmist á vegum opinberra aðila eða einkaaðila, hafi sýnt sig vera illa íbúðarhæft eða illa nothæft vegna myglu og rakaskemmda. Það hafa nokkrir þingmenn komið inn á það hér að jafnvel skólabyggingar á vegum sveitarfélaga hafa lent í vanda vegna þessa. Skýrustu dæmin í seinni tíð eru annars vegar Fossvogsskóli, sem var nefndur í fjölmiðlum í gær varðandi þetta, og síðan Kársnesskóli við Skólagerði í Kópavogi, en þar var á endanum farin sú leið að jafna skólann hreinlega við jörðu þar sem slík óvissa þótti um myglu og rakaskemmdir og líkindin lítil til að einhvers konar viðgerðir hefðu raunveruleg varanleg áhrif til bóta. Það var valið að fara alla leið og jafna skólann við jörðu og byrja upp á nýtt.

Tillagan og tillögugreinarnar gera í raun ákveðinn áskilnað til ráðherra að taka saman þær aðgerðir og reyna að beina þeim í farvegi og sem betur fer kom í ljós, við vinnslu tillögunnar í nefndinni, að hluti af því sem kannski er bent á í tillögugreinunum, undir liðum 1–6, er að vissu marki þegar í gangi en hefur kannski ekki verið nægilega vel formgert og þá er þessi þrýstingur sem þarna er settur á ráðherrann að skila einhvers konar greinargerð eða skýrslu til þingsins innan tiltekins tíma mikilvægur. Það er nefnilega þannig að heilsufarsafleiðingar þess að annaðhvort búa eða starfa í húsnæði sem er undir þessu orpið getur verið mjög mikill og við erum jafnvel í seinni tíð að sjá fólk fá metna örorku vegna slíkra kvilla. Það er mikilvægt að hafa í huga að þetta er einn af þeim skavönkum í samfélaginu sem er, ég ætla ekki að segja algerlega en að miklu leyti, fyrirbyggjanlegur. Þess vegna er svo mikilvægt að við séum svolítið á tánum.

Þessi mál eru nú komin undir Húsnæðis- og mannvirkjastofnun og ég vona að þegar eftirlitið og skoðunin er komin þar á eina hendi muni verða betri bragur á þessu og betri eftirfylgd. Þingmenn þekkja dæmin sem komu til að mynda upp á árunum í kringum og eftir hrun þegar það var gríðarlega mikill gangur í byggingariðnaði og menn kannski slakari á eftirliti en þeir hefðu ella verið og sýndi sig að mikið af húsnæði sem þá var byggt reyndist síðar undirorpið myglu og rakaskemmdum. Þetta er mjög slæmt vegna þess að við erum ekki bara að tala um heilsu fólks, við erum líka að tala um þeirra stærstu fjárfestingar í langflestum tilfellum stærstu eignir sem fólk á og getur þess vegna skipt gríðarlega miklu máli. Eins og þingmenn þekkja líka er fólk misnæmt fyrir þeim vanda sem myglu og rakaskemmdir valda. Í sumum tilfellum eru jafnvel tveir aðilar sem búa í sama húsnæði og annar finnur ekkert fyrir þessu en hinn er nánast óvinnufær. Það hefur kannski tafið fyrir að menn tækju á þessu af einhverjum myndugleika, þessi breytileiki á milli einstaklinga. En þetta er eitthvað sem er í öllu mannlegu samfélagi. Við getum verið með svipaða arfgerð en hún birtist með mismunandi hætti, t.d. í því hvernig við fáum sjúkdóma. Það sama á við þarna.

Ég held að það sé mikilvægt að klára þetta mál og fela ráðherra þetta verkefni. Þetta er mikilvæg viðurkenning á því að hér erum við með raunverulegan vanda sem við getum sem samfélag tekið á. Það er fagnaðarefni að þingið ætli að klára þetta.