151. löggjafarþing — 57. fundur,  18. feb. 2021.

hafnalög.

509. mál
[15:22]
Horfa

samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Virðulegi forseti. Hér mæli ég fyrir frumvarpi til laga um breytingu á hafnalögum, nr. 61/2003. Flokka má efni frumvarpsins í þrennt. Í fyrsta lagi er ákvæði um rafræna vöktun í höfnum. Í öðru lagi er innleiðing á ákvæðum reglugerðar Evrópusambandsins 2017/352 um að setja ramma um veitingu hafnarþjónustu og um sameiginlegar reglur um gagnsæi í fjármálum fyrir hafnir. Í þriðja lagi er ákvæði um eldisgjald.

Fyrst mun ég, herra forseti, fjalla um rafræna vöktun. Í 1. gr. frumvarpsins er lagt til að nýtt ákvæði bætist við lögin, sem verður 7. gr. a í hafnalögum, sem heimilar stjórnendum hafna að viðhafa vöktun á hafnarsvæði eða taka myndir með reglulegu millibili í öryggisskyni. Með frumvarpi þessu er lagt til ákvæði sem veitir höfnum heimild til að viðhafa slíka rafræna vöktun á hafnarsvæðum og miðla upplýsingum til notenda hafna með rafrænum hætti í rauntíma sem og til vaktstöðvar siglinga, lögreglu, Landhelgisgæslu Íslands og rannsóknarnefndar samgönguslysa. Á mörgum hafnarsvæðum er viðhaft myndavélaeftirlit. Þá er algengt að rauntímaefni myndavélanna sé sýnt á vefsíðum hafna í því skyni að bátaeigendur geti fylgst með bátum sínum og veðurlagi. Hafa skipstjórnarmenn sem eru á leið til hafnar einnig notað þessar upplýsingar til að sjá hvar laus pláss við hafnir eru. Tilgangur þessa ákvæðis er að veita lagaheimild fyrir vinnslu persónuupplýsinga sem verða til við þessa vöktun. Rétt er að taka fram að sveitarfélög munu þurfa að gera mat á áhrifum þessarar vöktunar á persónuvernd. 1. gr. frumvarpsins veitir loks ráðherra heimild til að mæla nánar fyrir um vinnslu persónuupplýsinga og skilyrði hennar í reglugerð.

Herra forseti. Næst ætla ég að víkja að ákvæðum frumvarpsins sem eru til innleiðingar á reglugerð Evrópusambandsins 2017/352, um að settur verði rammi um veitingu hafnarþjónustu og um sameiginlegar reglur um gagnsæi í fjármálum fyrir hafnir. Reglugerð þessi, sem tekin var upp í EES-samninginn með ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 128/2019, nær til hafna innan hins svokallaða samevrópska flutninganets. Fimm íslenskar hafnir eru í dag hluti af flutninganetinu eða Sundahöfn, Seyðisfjarðarhöfn, Fjarðabyggðahafnir, Vestmannaeyjahöfn og Landeyjahöfn. Í 6. mgr. 1. gr. reglugerðar Evrópusambandsins segir að aðildarríkin geti einnig ákveðið að reglugerðin gildi um aðrar hafnir. Við innleiðingu ákvæða reglugerðarinnar er hins vegar ekki gengið lengra en þörf krefur og munu ákvæði hennar því einungis gilda um hafnir innan samevrópska netsins að undanskildum ákvæðum um umhverfisafslætti sem ég fjalla um hér á eftir.

Til innleiðingar á ákvæðum reglugerðar ESB er í fyrsta lagi lagt til að við lögin bætist nýtt ákvæði, 9 gr. a, um hafnir innan samevrópska flutninganetsins. Í ákvæðinu segir að höfnum innan samevrópska flutninganetsins sé skylt að eiga samráð við notendur hafna um gjaldtöku og veita notendum upplýsingar um breytingar á eðli eða fjárhæð hafnargjalds a.m.k. tveimur mánuðum áður en breytingarnar taka gildi. Þá geti aðgangur að markaði til að veita hafnarþjónustu verið háður lágmarkskröfum um þá þjónustu, takmörkunum á fjölda veitenda, skyldum til að veita tiltekna opinbera þjónustu og takmörkunum sem tengjast innri rekstraraðilum. Þá verði ráðherra skylt með reglugerð að tilgreina þær íslensku hafnir sem eru innan samevrópska flutninganetsins og honum jafnframt veitt heimild til að mæla nánar fyrir um veitingu hafnarþjónustu og gagnsæi í fjármálum og sjálfstæði þeirra hafna, þar með talið um samráð við notendur hafna um gjaldtöku. Á grundvelli þessarar heimildar verða önnur ákvæði Evrópureglugerðarinnar sem þarfnast ekki lagabreytinga innleidd með reglugerð.

Í öðru lagi eru lagðar til breytingar á 17. gr. og 20. gr. hafnalaga sem heimila höfnum að veita afslátt af gjöldum með vísan til umhverfissjónarmiða, svokallaða umhverfisafslætti. Í 13. gr. áðurnefndrar reglugerðar Evrópusambandsins er kveðið á um hafnargrunnvirkjagjöld. Ákvæði hafnalaga eru að mestu í samræmi við ákvæði reglugerðarinnar. Þau hafa hins vegar ekki að geyma ákvæði sem er í reglugerð Evrópusambandsins þess efnis að hafnir geti veitt afslætti vegna umhverfissjónarmiða. Samkvæmt gildandi lögum er höfnum ekki heimilt að gera það nema sýnt sé fram á að kostnaður lækki við þá þjónustu sem þau veita.

Með frumvarpinu er lagt til að heimild til að veita afslætti af þessu tagi verði ekki bundin við þær íslensku hafnir sem eru á samevrópska flutninganetinu heldur nái hún til allra þeirra hafna sem falla undir gildissvið hafnalaga. Er talið eðlilegt að þessi heimild sé ekki bundin við hafnir innan samevrópska flutninganetsins enda mæla umhverfissjónarmið með því að hvati sé til staðar fyrir eigendur skipa til að gera út umhverfisvæn skip. Lagt er til að ráðherra fái heimild til að mæla nánar fyrir um þessa þætti í reglugerð. Er ætlunin að ráðherra geti þar kveðið á um viðmið sem horft skuli til við ákvörðun þessara afslátta.

Í þriðja lagi er lagt til að nýtt ákvæði bætist við 27. gr. hafnalaga um kærur á gjaldskrárákvörðunum. Í 1. mgr. 27. gr. gildandi laga segir að notendum hafna sé heimilt að skjóta ákvörðunum hafnarstjórna samkvæmt lögunum og reglugerðum settum samkvæmt þeim, öðrum en gjaldskrárákvörðunum, til Samgöngustofu. Eru gjaldskrárákvarðanir hafna því ekki kæranlegar samkvæmt gildandi lögum. Í 18. gr. Evrópureglugerðarinnar segir að allir aðilar sem eiga lögmætra hagsmuna að gæta skuli eiga rétt á að áfrýja ákvörðunum eða einstökum aðgerðum sem framkvæmdastjórn hafnarinnar, lögbært yfirvald eða annað viðeigandi landsyfirvald grípur til. Er því lagt til að ný málsgrein komi á eftir 1. mgr. 27. gr. sem segir að þrátt fyrir 1. mgr. sé heimilt að kæra gjaldskrárákvarðanir hafna innan samevrópska flutninganetsins, sem varða efni reglugerðar ESB 2017/352, til Samgöngustofu.

Herra forseti. Loks er með frumvarpinu lagt til ákvæði um gjaldtöku hafna vegna starfsemi fyrirtækja í sjókvíaeldi. Einn þáttur í starfsemi fiskeldisfyrirtækja er flutningur eldisfisks um hafnir, þ.e. umskipun, lestun og losun. Í 17. gr. hafnalaga sem kveður á um gjöld og gjaldtöku hafna samkvæmt gjaldskrá er ekki ákvæði sem kveður skýrt á um heimild hafna til að taka gjöld vegna þessa hluta starfsemi fiskeldisfyrirtækja. Hafa sumar hafnir byggt gjaldtöku vegna þessarar starfsemi í höfnum á ákvæði um aflagjald, aflagjald, þ.e. e-lið 1. töluliðar 2. mgr. 17. gr. laganna. Þar segir að höfnum sé í gjaldskrá heimilt að innheimta aflagjald af sjávarafurðum sem umskipað er, lestaðar eru eða losaðar í höfnum. Sé gjaldið innheimt skuli gjaldið vera minnst 1,25% og mest 3% af heildaraflaverðmæti. Í framkvæmd, þegar þessu ákvæði hefur verið beitt, hefur ekki ávallt verið notast við þau viðmið um hlutfall heildarverðmætis sem nefnd eru í þessu ákvæði. Uppi er ágreiningur um lögmæti þessarar gjaldtöku þar sem hún nái samkvæmt orðum sínum til afla sjávarútvegsfyrirtækja en ekki til eldisfisks frá fiskeldisfyrirtækjum. Að mati ráðuneytisins er þörf á því að leysa úr þessari réttaróvissu. Er því lagt til í frumvarpi þessu að við 1. tölulið 2. mgr. 17. gr. bætist nýr stafliður um eldisgjald af eldisfiski í sjókvíum, þar með talin eldisseiði. Hafnargjald samkvæmt þessum staflið skal standa undir kostnaði við að byggja, reka, viðhalda og endurnýja viðlegumannvirki, aðstöðu við bryggjur og á hafnarbakka þar sem við á og almennan rekstrar- og stjórnunarkostnað. Gjöld samkvæmt þessum staflið skulu greidd af þeim sem rækta eldisfiskinn sem fer um höfn hverju sinni. Hér er um afmarkað gjald að ræða sem nær ekki til annarrar starfsemi fiskeldisfyrirtækjanna.

Ekki er gert ráð fyrir að samþykkt frumvarpsins hafi umtalsverð áhrif á ríkissjóð í för með sér. Frumvarpið kemur til með að hafa kostnað í för með sér fyrir hafnir sem eru innan samevrópska flutninganetsins og meðan þær aðlagast nýjum reglum um gjaldtöku. Frumvarpið er ekki talið hafa umtalsverð áhrif á atvinnulífið.

Virðulegi forseti. Ég hef nú gert grein fyrir helstu efnisatriðum frumvarpsins og legg til að því verði að lokinni þessari umræðu vísað til hv. umhverfis- og samgöngunefndar og 2. umr.