151. löggjafarþing — 57. fundur,  18. feb. 2021.

hafnalög.

509. mál
[15:32]
Horfa

Guðjón S. Brjánsson (Sf) (andsvar):

Ég þakka hæstv. samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra fyrir að mæla fyrir þessu frumvarpi sem er mikilvægt, hefur þýðingu fyrir allnokkur samfélög. Við þekkjum þau auknu umsvif sem hafa orðið með fiskeldi þar sem sjókvíaeldi hefur verið ríkjandi. Mig langar að spyrja ráðherra ofurlítið um þessa mikilvægu breytingu. Við erum hér að innleiða EES-reglur en fyrir utan þær eru tvö atriði til viðbótar, þ.e. þessi ákvæði um rafræna vöktun og gjaldtöku, svokallað eldisgjald. Eins og hæstv. ráðherra kom inn á hefur verið núningur á milli fyrirtækja um gjaldtökuna, menn hafa tortryggt aflagjaldið og talið að það væri ekki lögmætt að innheimta aflagjald vegna eldisstarfseminnar. Ég vil heyra aðeins ofan í ráðherra varðandi það hvort sú umgjörð sem hér er lögð til sé nógu örugg og nægi sveitarstjórnum til að tryggja þær nauðsynlegu tekjur sem þarf til að starfrækja hafnirnar með góðu móti því að þessi fyrirtæki eru umsvifamikil á hafnarsvæðunum þó að það sé ekki eingöngu um uppskipun eða útskipun að ræða. Það er ýmislegt annað sem fylgir þessum fyrirtækjarekstri sem er við sjávarsíðuna eins og eðlilegt má heita.