151. löggjafarþing — 57. fundur,  18. feb. 2021.

hafnalög.

509. mál
[15:34]
Horfa

samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þm. Guðjóni Brjánssyni fyrir ágætt andsvar og tækifæri til að fara aðeins dýpra í tvo liði. Varðandi rafrænu vöktunina þá held ég að það sé sjálfgefið að það skorti einfaldlega heimildir til að vinna með þessi gögn sem geta verið mikilvæg, hvort sem er við rannsókn lögreglu eða eftirlitsaðila, t.d. rannsóknarnefndar samgönguslysa, ef það reynist nauðsynlegt þar sem þessi gögn eru til. Þessi vegna er þessi heimild sett inn og fjallað um hana með skýrum hætti.

Varðandi eldisgjaldið þá er staðan auðvitað sú, og þess vegna fór ég yfir það í mínu máli, að þetta myndi ekki í sjálfu sér hafa umtalsverð áhrif á atvinnulífið vegna þess að í dag er verið að innheimta gjald á grundvelli aflagjalds. Um það er hin réttarlega óvissa. Í þessu tilviki er verið að reyna að skilgreina þá þætti sem lúta að því sem fiskeldisfyrirtækin þurfa á að halda. Til að mynda er ekki talið að dýpkunarframkvæmdir í höfnum séu nauðsynlegar fyrir þjónustu við fiskeldisfyrirtækin og þar af leiðandi er sá liður ekki talinn eðlilegt andlag fyrir gjaldtöku. Ég tel reyndar mjög mikilvægt að nefndin skoði þetta ítarlega og beri til að mynda saman við þá gjaldtöku sem er undir fiskeldislögunum. Það er ekki verið að hugsa þetta sem einhverja tvígjaldtöku heldur er verið að reyna að skýra réttarstöðuna eins og hún er í dag. Einstaka hafnir eru að gefa afslátt (Forseti hringir.) umfram það sem stendur í lagatextanum um aflagjald. En það er líka (Forseti hringir.) einhver réttaróvissa uppi um lögmæti þeirrar gjaldtöku og þess vegna finnst mér nauðsynlegt að það verði skýrt.