151. löggjafarþing — 57. fundur,  18. feb. 2021.

hafnalög.

509. mál
[15:37]
Horfa

Guðjón S. Brjánsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir ágætt andsvar. Þessi umsvif um hafnirnar eru mikil eins og ég nefndi og þetta gjald sem um ræðir tekur til eldisfisks og eldisseiða sem fara um höfn og ekki annað. Umsvifin eru mikil og þetta er auðvitað hafnsækin starfsemi og aðilar eru háðir því að hafa aðstöðu við höfnina. Það eru sveitarfélögin sem kosta viðhaldið og uppbygginguna á hafnarsvæðunum og það er ekki tekið á því hér hvernig gjaldtökunni eigi að vera háttað beinlínis, hvort það sé eitthvert þak á gjaldtökunni, hvort þetta eigi að gerast í almennum samningum eða hvað. Sveitarfélögin hafa mikla þörf fyrir að þetta sé algjörlega á hreinu því að þau eiga kannski við að glíma að semja við öflug fyrirtæki og kannski mætast stálin stinn. Það eru miklir hagsmunir í húfi.

Síðan er annað atriðið fóðurflutningar, fóðurgjöfin út í kvíarnar. Þetta er gert með prömmum og prammarnir koma ekki endilega að landi. Það er verið að dæla á milli fyrir utan höfn sem má líka setja mikið spurningarmerki við því að þessir prammar eru engin sjóskip, þola illa sjó og ættu auðvitað að vera bundnir við bryggju þegar þeir eru ekki að þjónusta kvíarnar. Sennilega hefur einhvern tímann farið illa vegna þess. Það verður fróðlegt að fjalla um málið nánar í nefnd og fá álit gesta. En ef ráðherra vildi aðeins reifa svigrúmið til gjaldtökunnar og á hverju það ætti að byggjast.