151. löggjafarþing — 57. fundur,  18. feb. 2021.

hafnalög.

509. mál
[15:39]
Horfa

samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Eins og ég kom inn á í framsögu og fyrra andsvari er í dag verið að innheimta gjald á grundvelli aflagjalds sem menn hafa í mörgum tilvikum gefið afslátt af umfram það sem stendur í lagatextanum að prósentutalan eigi að vera. Ég tel það vera einhvers konar viðurkenningu hafnanna á því að þessi þjónusta sé ekki nákvæmlega sú sama og er verið að veita vegna sjávarútvegsstarfsemi. Ráðuneytið er sammála því og þess vegna erum við að reyna að skilgreina í lögunum hvaða þjónusta eigi að vera undir og þess vegna verða án efa uppi mismunandi sjónarmið, annars vegar sveitarfélaganna eða þeirra sem reka hafnirnar um að fleiri þættir eigi að heyra þar undir á meðan fiskeldisfyrirtækin óttast að þarna verði sett eitthvað meira undir sem ekki ætti að eiga heima þar. Þess vegna finnst mér mikilvægt að þessi lagagrein sé sett fram til að eyða réttaróvissunni. En ég er sammála hv. þingmanni að það verður viðfangsefni nefndarinnar að átta sig á jafnvæginu þarna á milli. Það er jú hlutverk löggjafans að höggva á slíka hluti, hafa regluverkið skýrt þannig að við fækkum ágreiningsefnum á milli einstaklinga eða fyrirtækja og/eða við sveitarfélögin og hafnirnar í þessu sambandi.

Hv. þingmaður nefndi fóðrið og við höfum fjallað um það að ráðuneytið hafi áður gefið út leiðbeiningar um að þegar fóður er flutt á fóðurpramma án viðkomu í höfn væri gjaldtaka þar ekki í samræmi við forsendur þjónustugjalda enda væri ekki til staðar nein mæld þjónusta af hálfu hafna fyrir gjaldið sem þar væri greitt. Það er verið að hugsa andlagið fyrir gjaldtökuna á grundvelli þeirrar þjónustu sem verið er að veita.