151. löggjafarþing — 57. fundur,  18. feb. 2021.

grunnskólar.

141. mál
[16:22]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegur forseti. Ég verð að segja eins og er að miðað við það sem fram kom í flutningsræðu hv. 3. þm. Suðurk. Birgis Þórarinssonar og í greinargerð frumvarpsins get ég ekki sagt að ég sé neitt hræðilega mikið á móti þessu máli. Mín afstaða er sú að það skipti ekki höfuðmáli hvort þarna standi kristinfræði og trúarbragðafræði eða ekki. Ég hygg að markmið frumvarpsins sé nú þegar að finna í trúarbragðafræðslu, enda veit ég ekki til þess að nokkurn tímann hafi verið ágreiningur um það á Íslandi að í trúarbragðafræðslu grunnskóla skuli vera sérstök áhersla á kristinfræði, kristna þáttinn af trúarbragðafræðunum, einmitt af þeim menningarlegu og sögulegu ástæðum sem hv. þingmaður fór ágætlega yfir í ræðu sinni. Þannig að efnislega geri ég ekki ágreining við hv. þingmann um það. Spurningin um hvort þarna þurfi að standa sérstaklega kristinfræði og trúarbragðafræði er því spurning sem mér er ekki alveg ljóst hvert svarið er við en þó er ég nokkuð sannfærður um að það skipti ekki hrikalega miklu máli að því gefnu að við séum öll sammála um markmiðið með þeim orðum sem standa þar, hver svo sem þau eru.

Ástæðan fyrir því að ég ákvað að koma hingað í ræðu og fjalla aðeins um þetta mál er í sjálfu sér ekki að mótmæla mörgu af því sem farið var yfir í framsöguræðu eða greinargerð frumvarpsins. Það er ýmislegt í hvoru tveggja sem ég gæti alveg rökrætt og er ekki alveg sammála eða hef aðra sýn á eða eitthvað því um líkt. Ég vil ekki sóa tíma áheyrenda í allt sem ég er ósammála hv. 3. þm. Suðurk. um, enda af nægu að taka. Hins vegar snertir þetta mál að mínu mati á ákveðinni grundvallarspurningu sem við höfum ekki tekist á við í íslensku samfélagi, hvort sem það er í grunnskólamenntun eða öðru, þ.e. hvernig og hvort fólk geri greinarmun á því sem er satt og því sem er ósatt. Þetta hljómar kannski svo sjálfsagt og augljóst að það sé skrýtið að nefna það sérstaklega, hvað þá í þingræðu. En ef ég þyrfti að velja einungis einn anga þess sem mér finnst mikilvægt að grunnskólabörn takist á við og að fullorðið fólk takist á við, eftir að hafa lært allt um öll trúarbrögð á Íslandi og víðar, er það þessi spurning: Hvernig gerir þú greinarmun á því sem er satt og því sem er ósatt? Er það hægt yfir höfuð eða er raunveruleikinn einfaldlega skynjun okkar? Ég hygg að rosalega margt fólk stoppi einfaldlega þarna og hugsi með sér: Já, þetta er einfaldlega allt skynjun okkar, og þess vegna sé í raun og veru tómt tal að ætla að fara að leiðrétta annað fólk varðandi einhvern algildan sannleika. Það þykir jafnvel hrokafullt að segja að eitthvað sé einfaldlega satt eða einfaldlega ósatt.

Virðulegi forseti. Við erum svo heppin að eftir allt trúarbragðabrölt fortíðarinnar höfum við í dag eitthvað sem heitir vísindalega aðferð. Það er ekki kristnin, með fullri virðingu fyrir fólki sem aðhyllist þau trúarbrögð. Það er ekki íslam, ekki gyðingdómurinn, það er ekki búddisminn. Það er reyndar ekki einu sinni guðleysið, ef út í það er farið. Það er vísindaleg aðferð sem gerði nútímasamfélag að því sem það er. Og það skiptir verulegu máli, það gerir það. Það sem vísindaleg aðferð gefur okkur er að við getum gert greinarmun á því hvað er satt og hvað er ósatt, alla vega í ákveðnu mengi, alla vega að gefnum ákveðnum skilyrðum. Það fyrsta sem heimspekin myndi segja okkur um það er að það er ekki hægt að beita vísindalegri aðferð á hvað sem er. Og það er alveg rétt, það er alveg dagsatt og þar er fullt af erfiðum, áhugaverðum og mikilvægum spurningum sem ekki er hægt að beita vísindalegri aðferð á. En það eru hlutir sem hægt er að setja undir hana.

Það sem ég tek eftir í mannlegu samfélagi er að jafnvel þegar það er komið á hreint þá er ofboðslega margt fólk í samfélagi okkar, ekki bara grunnskólabörn heldur líka fullorðið fólk, sem tekur samt einhvern veginn ekki vel í niðurstöður vísindalegrar aðferðar. Það fyrsta sem vísindaleg aðferð segir okkur, að vísu reyndar það sem hún gefur sér, er að niðurstöður okkar geta alltaf verið rangar. Það er í raun og veru frumforsenda þess að kanna eitthvað vísindalega og þá sé hægt að rengja fullyrðingarnar. Annars eru þær eiginlega þýðingarlausar í vísindalegu samhengi. Ef ég fullyrði að lítil flaska sem ég sleppi detti í gólfið þá þarf það að þýða eitthvað ef hún dettur ekki gólfið og ef ég fer að útskýra það með einhverjum öðrum hætti þá missum við tök á því hvað við eigum við með því sem við segjum, þá missum við tökin á því hvað það er sem við erum að prófa, hvort það er satt eða ekki. Að mínu mati er almennt þekkingarleysi og virðingarleysi fyrir vísindalegri aðferð ekkert minna en til skammar, ekki bara í íslensku samfélagi heldur í heiminum almennt. Það þykir kannski frekar grimmur dómur, það má vera, miðað við allar þær tækniframfarir og uppgötvanir sem við höfum gert með vísindalegri aðferð í gegnum tíðina. En það er enn þá þokkalega stór hluti á Íslandi af fullorðnu fólki, jafnvel vel menntuðu í einhverjum fögum, sem er bara ekki alveg sannfært um það, ekkert alveg visst um hvort þróunarkenningin sé í meginatriðum rétt eða ekki, hvort dýrategundir þróist úr einni yfir í aðra.

Ef við byggðum ekki á menningu sem væri mótuð svo mikið af kristinni trú heldur íslamskri trú þá gæti ég fullyrt að sá hópur væri mun stærri, enda er mótsögn milli þróunarkenningarinnar og flestra stóru skóla íslamskrar kennisetninga, reyndar með þeim fyrirvara að íslömsk kennisetning er æðimisjöfn eins og kristnin.

En virðulegi forseti. Það efast enginn um að jörðin snúist í kringum sólina, enginn sem við tökum mark á alla vega. Og sömuleiðis efast mjög fátt fólk um að jörðin sé hnöttótt, mjög fátt fólk. Það er til fólk sem trúir ótrúlegustu hlutum. En ef ég færi út á Austurvöll og segði við fólk að jörðin væri hnöttótt og snerist í kringum sólina myndi fólk bara kinka kolli eða velta fyrir sér af hverju ég væri að segja svo einfaldan og augljósan hlut. Það er vegna þess að það tvennt er ekki í mikilli mótsögn við það sem fólk vill trúa dagsdaglega. Þegar sú var tíðin þá mótmælti fólk vísindalegum gögnum. Það er þannig sem manneskjur virka. Það er það sem mér finnst oft vanta inn í samtal okkar hér í þingsal þegar við tölum um satt og ósatt eða virðingu fyrir staðreyndum, að manneskjur upp til hópa gefa sér að skynjanir þeirra séu réttar og að þær séu þess megnugar tiltölulega auðveldlega að gera greinarmun á sönnu og ósönnu. Og vegna þessa misskilnings hefur mannkyn haft svo hryllilega rangt fyrir sér um svo hryllilega margt, næstum því alls staðar og næstum því alltaf. Bjargvættur okkar úr þeim heimi var ekki kristin trú eða íslam eða gyðingdómur, heldur vísindaleg aðferð.

Þegar ég les 25. gr. laga um grunnskóla, sem þetta frumvarp leggur til að verði breytt, þá stingur það pínulítið í augun að ekkert í aðalnámskrá tekur, að því er ég best fæ séð, á þessu grundvallaratriði um það hvernig við metum raunveruleikann sem við búum í. Manneskjur upp til hópa og samfélög upp til hópa telja sig hafa svo greiðan aðgang að hinu sanna, að hinu rétta, telja sig svo góð, jafnvel óskeikul í því að meta muninn á sönnu og ósönnu, að þau temja sér ekki vinnubrögðin, þau ströngu og erfiðu og tímafreku og ekki augljósu vinnubrögð sem þarf til þess að gera þennan greinarmun á sönnu og ósönnu. Afleiðingin af þessu er sú að við erum oft hreinlega að rífast um, eða í það minnsta að rökræða eitthvað sem er spurning um staðreyndir, til að mynda hvort í einhverju skjali standi 5 eða 10. Það er staðreyndarspurning sem er ekki háð gildismati okkar eða sjónarhorni, annaðhvort segjum við rétt frá eða við segjum ekki rétt frá. Hvort það er viljandi eða óviljandi skiptir ekki einu sinni máli fyrr en við erum alla vega komin með það á hreint að við ætluðum að reyna að trúa því sem er satt. Og það er engan veginn ljóst með því að læra trúarbragðafræði eða kristinfræði.

Nú hætti ég mér inn á það svið, þar sem við erum að tala um kristinfræðslu og hlutverk hennar í samfélagi okkar og trúarbragðafræði, að það er þess virði að velta fyrir sér hvernig það módel virkar til að gera greinarmun á sönnu og ósönnu, hvernig manni verður umbunað fyrir að trúa einu eða refsað grimmilega fyrir að trúa öðru. Er það rétta módelið, virðulegi forseti? Ef við ætlum að vinna bug á einhverju vísindalegu vandamáli, ef við ætlum t.d. að komast að því úr hverju eitthvert lag á jörðinni er búið til eða eitthvað því um líkt, hvers konar grjót það er, og segjum sem svo að ég myndi stinga upp á þessari aðferð: Við ætlum að hafa þá aðferð að sá vísindamaður sem segir að þetta lag af jarðskorpunni sé úr gulli, við ætlum að gera þann einstakling vellauðugan og hefja hann á stall. En við ætlum að refsa þeim vísindamanni alveg hryllilega sem dirfist að segja að það sé bara aumt grjót eða eitthvað annað sem mér gæti verið illa við. Þetta módel væri algjörlega galið, virðulegi forseti, augljóslega. En þetta er módel sem er næstum því staðlað á meðal stærstu kenningaskóla útbreiddustu trúarbragða heimsins. Mér finnst það vera vandamál. Mér finnst það í það minnsta skrýtið vegna þess að þetta er engin leið til þess að nálgast sannleikann, þetta er engin leið til þess að gera greinarmun á sönnu og ósönnu. Ég myndi vilja sjá í aðalnámskrá eitthvað til að taka á þessu vandamáli, hvernig við manneskjur látum sannfæringu okkar stjórnast af því hvað okkur langar til að sé satt eða hvort okkur er umbunað fyrir að trúa einu eða refsað fyrir að trúa öðru. Það væri, að ég hygg, rétt svo út fyrir það sem mér finnst eðlilegt að fjalla mikið um hér í pontu, að fara út í hvaða áhrif þetta módel, sem ég lýsti hér, hefur haft á manneskjur á Íslandi í gegnum tíðina. Ég gæti tekið dæmi þar sem þetta sannleiksmódel veldur verulegum vandræðum, tilfinningalegum, félagslegum og persónulegum vandamálum. Það fólk er almennt ekkert mikið að tala um sína reynslu af því, það vill frekar setja tíma sinn í eitthvað annað eða hreinlega þorir það ekki af ótta við einhvers konar félagslega dóma eða afleiðingar eða nennir því hreinlega ekki. Ég ber fulla virðingu fyrir öllu því, að sjálfsögðu, en eins og ég segi tel ég það rétt svo út fyrir efni það sem ég vildi fjalla um í dag.

Virðulegi forseti. Til að ljúka þessu á jákvæðu nótunum er ég í sjálfu sér ekki ósammála því meginstefi sem kom fram í ræðu hv. 3. þm. Suðurk. Birgis Þórarinssonar hér áðan, þ.e. að í grunnskólamenntun, til að skilja menningu okkar og sögu, þurfum við að skilja kristinfræðina. Ég skil það sjónarmið og er sammála því. Mér finnst augljóst og sjálfsagt að þegar við setjum trúarbragðafræði í aðalnámskrá sé áherslan á kristin fræði, eða kristna sögu öllu heldur, til staðar af þessari ástæðu. Hv. þingmaður nefndi hér sérstaklega að það væri ekki hlutverk grunnskólanna að boða kristna trú, að stunda trúboð í sjálfu sér. Það þykir mér gott að heyra og ég er sammála og það gleður mig að við séum það þó öll hér á Alþingi. Það dugar mér í meginatriðum. En ég hef ekki alveg myndað mér endanlega skoðun á því hvernig ég greiði atkvæði um þetta mál. Ég hugsa að ég myndi bara sitja hjá vegna þess að ég held ekki að það skipti máli hvort þetta orð sé þarna eða ekki. En ég vildi koma upp og viðra þetta sjónarmið vegna þess að mér finnst það í samhengi málsins skipta jafn miklu máli og hinum trúuðu finnast trúarbrögð þeirra skipta máli.