151. löggjafarþing — 57. fundur,  18. feb. 2021.

matvæli.

140. mál
[17:25]
Horfa

Flm. (Gunnar Bragi Sveinsson) (M):

Forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum um matvæli, nr. 93/1995, með síðari breytingum, um sýklalyfjanotkun. Meðflutningsmenn mínir eru þingmenn Miðflokksins.

Þetta er í sjálfu sér ekki flókið mál að upplagi en býsna mikilvægt. Það er tvær greinar, eða ein grein í sjálfu sér, og með leyfi forseta ætla ég að lesa 1. gr.:

„Á eftir 15. gr. laganna kemur ný grein, 15. gr. a, svohljóðandi:

Fyrirtæki sem hafa með höndum smásölu matvæla skulu tryggja með merkingum í sölurýmum að neytendur hafi greiðan aðgang að upplýsingum um upprunaland matvælanna og meðalnotkun sýklalyfja við framleiðslu matvæla í viðkomandi landi. Matvælastofnun skal árlega gefa út leiðbeiningar um miðlun upplýsinga um upprunaland og sýklalyfjanotkun við framleiðslu matvæla.“

Frumvarpið er flutt í þriðja sinn en var síðast lagt fram á 150. löggjafarþingi, mál nr. 229. Markmið frumvarpsins er að bæta miðlun upplýsinga til neytenda um sýklalyfjanotkun við framleiðslu matvæla. Með þessu er tryggt að neytendur séu upplýstir um meðalnotkun sýklalyfja við framleiðslu matvæla í upprunalandi þeirra matvæla sem boðin eru til sölu í matvöruverslunum og geti byggt ákvarðanir sínar um val á matvöru á þeim upplýsingum.

Í byrjun árs 2017 birti Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin, WHO, lista yfir sýklalyfjaónæmar bakteríur þar sem stofnunin flokkaði tólf ættir baktería eftir áhættuflokkum. Haustið 2019 varaði stofnunin við að jarðarbúar væru að verða uppiskroppa með nothæf sýklalyf og hvatti til þróunar nýrra lyfja. Aðalframkvæmdastjóri stofnunarinnar lýsti því yfir 20. september 2017 að neyðarástand væri að skapast í meðhöndlun sjúklinga vegna sýklalyfjaónæmis. Þá kemur fram í skýrslu Evrópusambandsins frá því í febrúar 2019 að aukið ónæmi gegn sýklalyfjum stofni í hættu hefðbundinni meðferð við lekanda, sem er næstalgengasti kynsjúkdómur innan EES-svæðisins. Í skýrslu sem unnin var í Bretlandi um aðgerðir gegn sýklalyfjaónæmum bakteríum kemur fram að árlega láti um 700.000 manns lífið á heimsvísu af völdum slíkra baktería.

12. apríl 2017 skilaði starfshópur, skipaður af heilbrigðisráðherra, greinargerð um aðgerðir til að draga úr útbreiðslu sýklalyfjaónæmra baktería á Íslandi. Í greinargerðinni kemur m.a. fram að sýklalyfjanotkun í dýrum hér á landi hefur verið ein sú minnsta á heimsvísu. Þá hafi algengi sýklalyfjaónæmis hér á landi verið umtalsvert minna en í nágrannalöndum. Í greinargerð starfshópsins og í áðurnefndri skýrslu frá Bretlandi er fjallað um mikilvægi þess að auka meðvitund almennings um hættuna sem fylgir ofnotkun sýklalyfja. Þá er í greinargerð starfshópsins lagt til að innleidd verði stefna um skynsamlega notkun sýklalyfja í dýrum, m.a. verði gefnar út leiðbeiningar um skynsamlega notkun þeirra. Þótt mikið hafi verið fjallað um notkun sýklalyfja og hættuna sem fylgir sýklalyfjaónæmum bakteríum hefur heildstæða stefnu vantað á Íslandi.

Lyfjastofnun Evrópu gefur árlega út skýrslu um sölu sýklalyfja sem ætluð eru dýrum í 30 ríkjum Evrópu. Í þeirri skýrslu má finna upplýsingar um notkun sýklalyfja í helstu innflutningsríkjum Íslands. Nauðsynlegt er að auka vitund almennings um efni skýrslunnar enda hefur skort mikið á miðlun upplýsinga til almennings um notkun sýklalyfja við framleiðslu matvæla. Hafi almenningur greiðan aðgang að þessum upplýsingum í sölurýmum verslana geta neytendur tekið ákvörðun um frá hvaða ríkjum þeir kaupa matvæli á grundvelli opinberra upplýsinga um notkun sýklalyfja í matvælaframleiðslu.

Herra forseti. Þetta mál snýst einfaldlega um það að við komum því á framfæri til viðskiptavina í verslunum hvers konar vara stendur þeim til boða, að það komi t.d. skýrt fram hvaða vörur eru frá löndum þar sem er mikil lyfjanotkun. Að sjálfsögðu þurfum við að hugsa um heilsu Íslendinga og okkar dýrastofna. Það er því mjög mikilvægt að fólk geti gert sér grein fyrir því, þegar það fer út í verslun, hvað sé í vörunni, hverjar aðstæður hafi verið við framleiðslu hennar og hvort mikið hafi verið notað af sýklalyfjum. Eins og fram kemur í þessu frumvarpi til laga um breytingu á lögum þurfa upprunamerkingarnar jafnframt að vera skýrar.

Það er alveg dæmalaust að þurfa, þegar maður fer út í verslun og velur sér vöru í körfuna, að leita með logandi ljósi að merkingum, hvort varan er íslensk eða erlend. Í dag er í mörgum tilfellum mjög erfitt að finna slíkar merkingar. Það eru einstaka verslanir eða framleiðendur sem gera þetta býsna vel en þetta þarf að laga. Það er líka mikilvægt að við skoðum af fullri alvöru hvort ekki sé rétt að merkja með miklu skýrari hætti upprunaland, að setja það hreinlega í lög eða reglur að upprunaland verði merkt með áberandi hætti á vörum sem seldar eru í verslunum þannig að ekki fari milli mála hvort varan er framleidd á Íslandi eða einhvers staðar í Evrópu eða Asíu, mögulega flutt á annan stað, þídd upp þar og eitthvað framleitt úr henni sem er svo selt á Íslandi. Hér erum við bara að tala um uppruna. Að sjálfsögðu eigum við líka að geta valið um það hvort við veljum vöru sem mikið af lyfjum hefur verið dælt í sem getur haft áhrif á heilsu okkar.

Að lokum, herra forseti, langar mig að velta því upp hvort íslensk veitingahús eigi að taka það upp hjá sér, og ef ekki þá finnst mér að skoða eigi að setja það í lög og reglur, að merkja á matseðlum hvaðan vara sem stendur neytendum til boða kemur. Í dag er það þannig að við höfum ekkert val. Við höfum ekki hugmynd um það á mörgum stöðum. Það eru einstaka staðir sem merkja hvort veitingarnar eða maturinn er íslenskur eða innfluttur en ekki hvaðan varan kemur eða hver meðferðin á dýrum hefur verið við framleiðslu hennar og þess háttar.

Herra forseti. Ég vona að málið fái hraða afgreiðslu í þinginu. Þetta er mál sem er öllum Íslendingum til góða.