151. löggjafarþing — 58. fundur,  23. feb. 2021.

atvinnuleysisbótaréttur.

[13:12]
Horfa

félags- og barnamálaráðherra (Ásmundur Einar Daðason) (F):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir þessa fyrirspurn. Við höfum komið jafnt og þétt með ýmsar aðgerðir til þess að ná utan um stöðu fólks sem er atvinnulaust. Ég hef sagt það og segi það hér líka varðandi einstaklinga sem eru búnir að vera atvinnulausir í 30 mánuði að eitt er að tryggja framfærslu þeirra, hvort sem það er gert í samstarfi ríkis og sveitarfélaga eða með framlengingu bótaréttar. Það eru ýmsar leiðir til þess. Hitt er að koma þeim í einhverja virkni. Þegar einstaklingur er búinn að vera atvinnulaus í 30 mánuði eða í um 900 daga er gríðarlega mikilvægt að við náum utan um það að koma honum í einhverja virkni samhliða því sem við tryggjum honum framfærslu. Við höfum verið að vinna að því undanfarnar vikur að forma einhvers konar aðgerðir til þess að ná utan um þessa einstaklinga, til þess að aðstoða þá við að komast í virkni og tryggja þeim framfærslu samhliða. Það er von mín að við getum á næstu tveimur vikum kynnt eitthvað í þá veruna vegna þess að ég sé lausnina ekki fólgna í því eingöngu að framlengja bótaréttinn. Þegar einstaklingur er búinn að vera, ég ítreka það aftur, atvinnulaus í 30 mánuði eru verulegar líkur á því að þar sé orðinn einhvers konar félagslegur vandi og þá ber okkur sem samfélagi að taka utan um einstaklinginn; ríkinu, sveitarfélögunum og eftir atvikum atvinnulífinu.

Við höfum ráðist í margvíslegar aðgerðir og ég tek undir með hv. þingmanni, við höfum verið í góðu samstarfi við Samband íslenskra sveitarfélaga og höfum verið að kortleggja þennan hóp betur. Ég vonast til þess að einhverjar aðgerðir verði kynntar á allra næstu dögum eða vikum.