151. löggjafarþing — 58. fundur,  23. feb. 2021.

yfirfærsla reksturs hjúkrunarheimila frá ríki til sveitarfélaga.

[13:21]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra svarið og ég heyri að hún er langeyg eftir því að þessi hópur fari að skila einhverri niðurstöðu. Og það eru fleiri sem bíða, þetta eru orðnir margir mánuðir eins og ég rakti. Það er algerlega óviðeigandi að það skuli vera auglýst eftir nýjum rekstraraðila sjö mánuðum eftir að sveitarfélag hefur sagt upp. Það er náttúrlega eitthvað að í kerfinu þegar svo langur tími líður vegna þess að þetta skiptir verulegu máli fyrir, eins og við nefndum, heimilismenn. Svo langar mig að spyrja hæstv. ráðherra út í réttarstöðu starfsfólks almennt þegar þessi óvissa er uppi. Koma þau til með að halda sínu starfi, verður þeim sagt upp, hvað með launakjörin o.s.frv.?

Mig langar sérstaklega að spyrja um tilfelli Vestmannaeyja. Nú hefur enginn lýst yfir áhuga á því að taka við þeim rekstri. Hvernig ætlar ráðuneytið að leysa þá stöðu? Mun ráðuneytið mæta (Forseti hringir.) þeim fjárframlögum sem þarf til þess að sveitarfélagið haldi áfram að reka hjúkrunarheimilið í Vestmannaeyjum?