151. löggjafarþing — 58. fundur,  23. feb. 2021.

Garðyrkjuskóli ríkisins.

[13:39]
Horfa

Ari Trausti Guðmundsson (Vg):

Herra forseti. Við höfum sett okkur metnaðarfulla matvælastefnu á Íslandi og hún snýst m.a. um svokallað matvælaöryggi og gæði matvæla en líka um sóknarfæri hér innan og utan lands. Þegar við tölum um sóknarfæri þá eigum við við hina hefðbundnu garðyrkju, sem við köllum svo, þar sem t.d. sveitarfélögin koma mjög sterkt inn með fegrun síns umhverfis o.s.frv., en ekki hvað síst ylræktina sjálfa. Í þessum greinum er gildi menntunar auðvitað ótvírætt og þarf ekki að fara mörgum orðum um það. Fyrirkomulag þessarar menntunar var að áður hét þetta Garðyrkjuskóli ríkisins, síðan gekk hann inn undir Landbúnaðarháskóla Íslands og svo hafa liðið núna á að giska tvö ár þar sem hefur verið ósamkomulag og jafnvel skortur á samráði á milli aðila þannig að staða menntunar og fyrirkomulag hangir að sumu leyti í lausu lofti. Ég er samþykkur þeirri niðurstöðu hæstv. ráðherra, Lilju Alfreðsdóttur, að skilja á milli fagmenntunar og framhaldsmenntunar, þ.e. að leggja höfuðáherslu á að menntun í garðyrkju og ylrækt sé á framhaldsskólastigi en síðan geti menn náð sér í framhaldsmenntun á háskólastigi. Það er í samræmi við álit þorra aðila í greininni. Nú þegar fyrir liggur ákvörðun um að nám í garðyrkju og ylrækt verði vistað undir Fjölbrautaskóla Suðurlands vil ég spyrja: Hvaða skref þarf að taka á næstunni svo að þetta verði nú í góðu lagi? Og eins, hvernig þarf að byggja upp aðstöðu garðyrkjuskóla LBHÍ að Reykjum til að húsnæði og tækjakostur teljist fullnægjandi, svo að hluti náms í garðyrkju og ylrækt geti farið þar fram?