151. löggjafarþing — 58. fundur,  23. feb. 2021.

Garðyrkjuskóli ríkisins.

[13:42]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Lilja Alfreðsdóttir) (F):

Virðulegur forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrirspurnina og fyrir að vekja máls á þessu mikilvæga viðfangsefni, þ.e. garðyrkju og matvælaframleiðslu á Íslandi. Framtíð garðyrkju á Íslandi er björt hvað varðar menntun, rannsóknir og tækifæri. Ég vil fyrst byrja á því að fjalla um menntunina. Eins og er orðið ljóst höfum við ákveðið að starfsnámið verði undir Fjölbrautaskóla Suðurlands og við viljum efla það. Þetta höfum við gert í samvinnu við Landbúnaðarháskólann, Fjölbrautaskóla Suðurlands og Reyki. Það er mjög mikilvægt að stíga þetta skref og öll umgjörðin í kringum námið er að verða skýr og á Suðurlandi er mikill áhugi á því að stíga þetta skref.

Næst langar mig að nefna að við ætlum að setja á laggirnar framtíðarhóp er varðar Reyki, þ.e. allt sem tengist því. Við höfum verið að fjárfesta í húsnæði og byggja upp eins og okkur er frekast unnt að gera. Þetta gerum við vegna þess að við teljum að tækifærin í garðyrkju séu endalaus á Íslandi. Það sem mig langar líka að nefna hér, og ég tel að sé mjög mikilvægt, er að við sjáum aukna nýsköpun og eitt af því sem við viljum leggja áherslu á er að landbúnaðurinn taki til að mynda mið af lóðréttum landbúnaði, að við færum okkur og rannsökum enn meira hvað það varðar. Enda sjáum við að ef við viljum ýta undir sjálfbærni Íslands þurfum við enn frekar að huga verulega að stórum skrefum í matvælaframleiðslu.