151. löggjafarþing — 58. fundur,  23. feb. 2021.

Garðyrkjuskóli ríkisins.

[13:44]
Horfa

Ari Trausti Guðmundsson (Vg):

Herra forseti. Ég vil þakka hæstv. ráðherra fyrir svörin. Ég vil bara ítreka tvennt í þessu sambandi. Annars vegar að sáttin sem þarf að ríkja í þessum efnum, milli fagaðilanna, greinarinnar, þeirra sem stjórna Fjölbrautaskóla Suðurlands, þeirra sem stjórna Landbúnaðarháskólanum, þarf að vera með þeim hætti að samfella verði í náminu, það verði ekkert hik. Og hins vegar, þegar kemur að húsnæði Garðyrkjuskólans að Reykjum, þá hefur það verið mjög bágborið og hefur margt gengið á þar. Það þarf að tryggja bæði fjármuni og áframhaldandi samkomulag til að sú aðstaða og eignarhald á henni o.s.frv. verði með þeim hætti að engin alvarleg truflun verði á náminu. Ég er alveg sammála hæstv. ráðherra að í þessu liggja mýmörg tækifæri til nýsköpunar, útflutnings o.fl., en þarna þurfa menn virkilega að taka höndum saman.