151. löggjafarþing — 58. fundur,  23. feb. 2021.

staðgreiðsla við innborgun í lífeyrissjóð.

128. mál
[14:26]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf):

Virðulegur forseti. Við erum að ræða þingsályktunartillögu Flokks fólksins um staðgreiðslu við innborgun í lífeyrissjóð. Ég hef heilan helling um þetta mál að segja en ég held ég taki upp boltann þar sem hann var síðast í þessari umræðu og taki inn umræðuna um skerðingarnar, hvort við getum sætt okkur við það að þeir sem eru á hæstu launum fái frá ríkinu. Staðan er þannig í dag að það er stór hópur fólks sem heldur fullum eftirlaunum. Stór hópur er kannski einum of mikið sagt en það er samt hópur fólks sem heldur fullum eftirlaunum eftir að hann fer á ellilífeyri. Þessi hópur er með það há laun að þeir eiga ekkert að fá frá ríkinu. Við vitum að kerfið verður núllstillt rétt við 600.000–700.000 kr., 670.000 kr., held ég að það sé í dag eða hvort það er komið í 680.000 kr. Þá núllstillist kerfið. En hvað skeður við þessa núllstillingu? Jú, þeir sem komast þarna yfir, fara ekki inn til Tryggingastofnunar ríkisins. Þeir þurfa ekki að láta Tryggingastofnun ríkisins vera með rannsóknaraugun ofan í öllum þeirra fjármálum. Þeir geta líka gert annað, þeir geta farið út á vinnumarkaðinn og unnið. Þeir geta unnið eins og þeir vilja án skerðinga. En á sama tíma er verkamaður eða verkakona að fara á eftirlaun sem hafa verið á lágmarkslaunum, 350.000 kr., kannski 400.000 kr. mánaðarlaunum. Þessir einstaklingar fara út á vinnumarkaðinn og fá kannski 150.000–200.000 kr. í lífeyrissjóðslaun. Hvernig í ósköpunum eiga þeir einstaklingar að lifa á þessu þegar við taka skattar og skerðingar? Þess vegna erum við að tala um að skatta inngreiðslur í lífeyrissjóð.

Síðan höfum við líka spurt: Hvað eigum við að gera í framtíðinni? Við missum þessar tekjur í framtíðinni. Hvað gerðum við í hruninu? Hvað skeði í hruninu í lífeyrissjóðunum? Hversu mikið tapaðist af skatttekjum ríkisins í hruninu? Hvernig er það í dag? Sennilega 400–500 milljarðar. Er það á einhvern hátt eðlilegt að leyfa lífeyrissjóð að gambla með 6.000 milljarða á markaði, þar af á þriðja þúsund milljarða skatttekjur, gambla með það á markaði eins og, liggur við, í spilavíti? Áhættufjárfestingar, fjármagnið er orðið allt of mikið …(Gripið fram í.) Já, kaupa banka eða hreinlega fara með gjaldeyri úr landi. Þeir eru búnir að fjárfesta í sjálfum sér kerfisbundið innan lands, eiga orðið nær hvert einasta fyrirtæki sem hreyfist á markaði. Við höfum áhyggjur og segjum: Bíddu, það verða ekki til peningar í framtíðinni. Höfum við heyrt þetta áður? Iðnbyltingin? Jú, það átti allt að verða bara svart í framtíðinni. Tölvurnar komu. Blessaður, við getum bara kvatt alla, það verður allt selt og enga vinnu að fá. En framtíðin er ekki afsökun fyrir því að níðast á fólki og láta það lifa, ekki í fátækt heldur sárafátækt, í nútíðinni, bara af því að hægt er að gera það, af því að við erum búin að ákveða að leyfa ákveðnum aðilum að gambla með skatttekjur ríkisins á markaði. Þá sé bara allt í lagi og hægt að segja að það séu ekki til peningar fyrir fólk sem lifir á 220.000 kr. Nei, það lifir ekki á bara 220.000 kr., það er undir 200.000 kr. ef það eru búsetuskerðingar og enn þá lægra ef það þarf að fara á félagslegar bætur hjá sveitarfélögum. Gæti einhver þingmaður í þessum sal ímyndað sér að reyna að lifa á 150.000 kr.? Það er ekki einu sinni hægt að lifa á því, það er ekki hægt að tóra á því.

Það er galið í sjálfu sér að skattleggja ekki inngreiðslu í lífeyrissjóð og líka séreignarsparnaðinn. Með því myndum við örugglega ná inn 100 milljörðum. Við náum sennilega 80 milljörðum með því að skattleggja inngreiðslur í lífeyrissjóði nú þegar og svo myndi bætast við séreignarsparnaðurinn. Hvað getum við gert við þetta? Hvernig getum við notað þessa peninga? Við þurfum t.d. að taka út þessa skatta og skerðingar. Við gætum komið uppreiknuðum skatta- og skerðingarlausum lífeyrislaunum upp í 350.000 kr. kannski strax, til að byrja með. Hvað myndi það kosta? Kannski 50 milljarða, helminginn af fyrrnefndri upphæð. En hver er ávinningurinn? Ef við gátum gert þetta 1988 við upphaf staðgreiðslu — þá voru lífeyrislaun skatta- og skerðingarlaus og fólk átti meira að segja upp í lífeyrissjóðsgreiðslur — þá getum við það núna.

En síðan hafa fjórflokkarnir tekið hér völd og séð til að þess að búa til alls konar gildrur: Sérstaka uppbótin, húsaleigubætur, sérstakar húsaleigubætur, hjónaskatturinn, sem var á sínum tíma og var eitt það stórfurðulegasta, hjónaskattur þar sem hjón voru samsköttuð þannig að annar aðilinn átti að sjá um hinn. Munum við eftir því? Sem betur fer er það farið en við erum samt enn þá með það bæði gagnvart eldri borgurum og öryrkjum. Það eru um 120.000–130.000 kr. sem fara í hjónaskatt ef fólk vill búa saman. Gætum við heimfært þetta upp á okkur hér á þingi? Myndi einhver hér á þingi sætta sig við að borga hjónaskatt, að það yrði dregið frá af því að maki viðkomandi væri með vinnu? Það dettur engum í hug. Það sem við eigum að spyrja okkur að, er: Hvað þarf einstaklingur til að lifa af? Af hverju er ekki spurt að því? Af hverju er það ekki reiknað út? Jú, það er reiknað út en með alls konar brellum t.d. þannig að húsnæði er ekki tekið inn í. Menn forðast það eins og heitan eldinn. Ríkisstjórn eftir ríkisstjórn reiknar út raunverulega framfærslu, hvað þarf til að lifa á Íslandi. Ég get alveg sagt ykkur það strax að það duga ekki 220.000 kr. eða minna. Það er alveg á hreinu og við vitum það.

Þess vegna erum við að leggja fram þessa tillögu, einmitt í þeim tilgangi að taka á þessum vanda. Á sama tíma erum við í miðju Covid og við erum að stórauka skuldir ríkissjóðs um 600–700 milljarða, bara vegna Covid. Heildarskuldir, eins og kom hérna fram, eru 2.000 milljarðar. En við erum með tekjurnar fyrir framan okkur. Við erum með þær fyrir framan nefið á okkur. Nei, sverfum frekar að heilbrigðiskerfinu, sverfum frekar að öryrkjum, eldri borgurum, látum jafnvel heilbrigðiskerfið bera skarðan hlut frá borði. Finnum þessi breiðu bök, látum þau borga.

Ég verð að segja alveg eins og er að það er stórfurðulegt að við skulum vera komin þetta langt, árið 2021, og vera ekki vitrari eða þróaðri en það að vera með kerfi, eins og ég hef alltaf sagt og mun alltaf segja, þar sem við setjum veikt fólk í biðraðir til að ná sér í mat. Hvernig í ósköpunum getum við leyft okkur það? Og ég spyr: Hvers vegna í ósköpunum eru þeir flokkar sem hafa látið þetta viðgangast áratug eftir áratug alltaf með völdin? Þeir lofa fyrir kosningar að þeir ætli sér að breyta þessu.

Virðulegur forseti. Ég sé að tíma mínum er lokið þannig að ég ætla að biðja um að verða settur aftur á mælendaskrá því að ég er ekki búinn að ljúka mínu máli.