151. löggjafarþing — 58. fundur,  23. feb. 2021.

staðgreiðsla við innborgun í lífeyrissjóð.

128. mál
[14:44]
Horfa

Flm. (Inga Sæland) (Flf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Ólafi Þór Gunnarssyni fyrir ræðuna og innlegg hans og að taka þátt í þessu með okkur hér. Hann las upp úr umsögn Alþýðusambandsins og mig langar að spyrja hv. þingmann í fyrsta lagi: Er einhvers staðar talað um það þarna hvað margir eru dánir áður en kemur að því að þeir taki krónu af því sem þeir hafa verið lögþvingaðir til að greiða á ævinni inn í lífeyrissjóði? Ég þekki marga sem hafa hrokkið upp af á besta aldri og eru búnir að borga stórfé þar inn sem fellur bara í hítina. Það er númer eitt. Númer tvö: Það er engu líkara en þessi umsögn geri grein fyrir því að okkur haldi bara áfram að fjölga vegna öldrunar. Við verðum eldri og eldri en í rauninni verði engin endurnýjun í samfélaginu faktískt, það fækki alltaf vinnandi höndum. Ég veit ekki betur en að þingflokkur hv. þingmanns og jafnvel fleiri hér vilji hreinlega flytja fólk unnvörpum inn í landið og ég ætla að vona að það sé ekki bara til þess að fara á bótakerfi. Ég ætla að vona að þeir vilji flytja inn fólk til að taka þátt í samfélaginu og halda áfram að byggja það upp með okkur og vinna og vera vinnandi hendur. Ég spyr hv. þingmann líka út í það.

Svo segir hann að skattarnir myndu aukast og við værum að færa þetta yfir á næstu kynslóð. Er hv. þingmaður að segja að við sem greiðum staðgreiðslu núna séum að færa það yfir á næstu kynslóð? Með því að greiða staðgreiðslu af launum okkar núna séum við að færa það yfir á næstu kynslóð? Þetta orðfæri er algerlega fyrir ofan mína takmörkuðu skynsemi greinilega. Og að ríki og sveitarfélag njóti — ef ríki og sveitarfélög hafa einhvern tíma þörf á því að fá aukið fjármagn inn í sinn rekstur, með fullri virðingu, hv. þingmaður, þá finnst mér það vera akkúrat núna þegar við (Forseti hringir.) erum gjörsamlega í blóðugum bardaga í efnahagshruninu sem við glímum við þessa dagana.