151. löggjafarþing — 58. fundur,  23. feb. 2021.

staðgreiðsla við innborgun í lífeyrissjóð.

128. mál
[14:53]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það er hlaupinn galsi í mannskapinn. En ég þakka hv. þm. Ólafi Þór Gunnarssyni fyrir ræðu hans. Nú er hann læknir og nú hafa orðið gífurlegar breytingar á íslensku þjóðfélagi, hraðar breytingar og ein af þeim hröðu breytingum er hækkandi lífaldur og vaxandi vinnugeta, þannig að mér heyrist hann trúa því að eftir 30–40 ár, í framtíðinni þegar eru svona miklar áhyggjur af því að skatttekjurnar dugi ekki — er þá ekki mjög líklegt að ellilífeyrisaldurinn verði komin í 100 ár? Við vitum auðvitað ekkert. En það er alltaf þessi hræðsluáróður sem við notuðum líka í iðnbyltingunni og í sambandi við tölvurnar og allt saman. Alltaf er því trúað að eitthvað í framtíðinni sé óttalegt. En staðan er þannig í dag að við vitum að við erum með fé í hendi. Við erum með fé í hendi í dag sem er í lífeyrissjóðum en við vitum ekkert hvort það fé verði í hendi eftir 10–20 ár. Við eigum að læra af bankahruninu. Þetta er alveg óskrifað blað. Finnst hv. þingmanni kerfið eins og það er byggt upp í dag eðlilegt, að þeir sem eru forríkir og eru að „gambla“ á fjármálamörkuðum og annars staðar borgi 22% fjármagnstekjuskatt en á sama tíma borgi fólk sem er að reyna að safna í lífeyrissjóð fullan skatt en ekki fjármagnstekjuslatt? Lífeyrissjóðurinn er að stærstum hluta fjármagnstekjur og það ættu eiginlega að gilda svipaðar reglur um lífeyrissjóðinn. Finnst honum kannski eðlilegt að verkamaður sem á von á að fá 56% til 70% af launum sínum til að lifa þegar hann fer á eftirlaun — hvernig í ósköpunum sér hann fyrir sér að sá sem er á leigumarkaði eigi að geta lifað af þeim smánarlífeyrislaunum sem hann fær?