151. löggjafarþing — 58. fundur,  23. feb. 2021.

staðgreiðsla við innborgun í lífeyrissjóð.

128. mál
[14:57]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir svarið. Ég vil bara grípa boltann akkúrat þarna á lofti. Við vorum að tala um hvernig við erum með þjóðfélagið í dag og við sjáum að við erum að setja ákveðnar stórfurðulegar reglur. Við segjum við öryrkjann: Þú mátt ekki vinna og ef þú ætlar að vinna þá refsum við þér, nema jú, þú mátt vinna fyrir 109.000 kall. Ef þú færð eitthvað fram yfir það ætlum við að refsa þér. Og við segjum við eldri borgara: Jú, þið megið vinna fyrir 100.000 kallinn. Ef þið farið eitthvað lengra tökum við bara 45% af því, fyrst skatta og svo 45%, 80% skerðing. Samt erum við núna að tala um einhvern ótta í framtíðinni. Ég segi fyrir mitt leyti: Hættum þessu. Komum því þannig fyrir að við hvorki sköttum né skerðum meðallaun þeirra sem eru með lágmarkslaun, lægstu launin á vinnumarkaðnum, þessi lágmarkshungurlaun þegar viðkomandi fer á eftirlaun. Væri það ósanngjarnt? Ég held ekki. Við gætum gert þetta með skattlagningu eins og við erum að tala um. Þá kemur líka það sem ég hef einnig velt upp: Hvaða afleiðingar hefur það fyrir þjóðfélagið ef við tökum þennan hóp og sjáum til þess að hann geti valið sér hollan mat, hollan lífsstíl, þurfi ekki að svelta sig eða borða mat sem er óhollur vegna þess að hann er ódýrastur? Og hvaða áhrif hefur þetta þá á heilbrigðiskerfið og allt samfélagið? Við erum að sjúkdómavæða stóran hluta fólks með því að setja það í þær aðstæður að þurfa að fara í röð eftir mat, misgóðum mat og ekki nægilega vítamínríkum mat. Og plús það að það hefur ekki tækifæri til að bjarga sér og eiga eðlilegt líf eins og við öll hin viljum og eigum rétt á að eiga.