151. löggjafarþing — 58. fundur,  23. feb. 2021.

staðgreiðsla við innborgun í lífeyrissjóð.

128. mál
[15:02]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf):

Virðulegur forseti. Það er búin að vera lífleg umræða og góð um þingsályktunartillögu Flokks fólksins um staðgreiðslu við innborgun í lífeyrissjóði. Við erum í svolítið skrýtnum málum, t.d. með skattalækkanir þessarar ríkisstjórnar eða hvað á maður að segja, skattalækkanir og skattahækkanir, eins og þegar skattprósenta var lækkuð úr 37 komma eitthvað niður í 35% en á sama tíma var persónuafslátturinn líka lækkaður. Það er eitthvað tekið með vinstri hendinni og eiginlega líka með hægri og svo bætt við einhvers staðar inn á milli. Það finnst mér mjög skrýtið. Ég verð að segja alveg eins og er að það að reyna að telja það til góðs að vera í einhverjum svona brelluleik með prósentur og persónuafslátt er bara sorglegt. Persónuafsláttur á ekki að vera fyrir þá sem eru á góðum launum. Persónuafsláttur á eiginlega að hverfa með hækkandi launum. Ég hef talað um t.d. laun þingmanna og það launaskrið, við gætum algerlega verið án persónuafsláttar. Aftur á móti myndi ég segja að það ætti að hækka persónuafslátt þeirra lægst launuðu þannig að þeir þurfi ekki að borga skatt og hvað þá að skerðingar séu notaðar.

Það er grundvallaratriði að sjá til þess að það verði til peningar svo enginn þurfi að svelta og við getum gert það með því að skattleggja inngreiðslur í lífeyrissjóði. Það er ömurlegt til þess að vita að maður skuli vera búinn að vera í á fjórða ár á þessu þingi og alltaf verið að hamra á þessu en það breytist ofboðslega lítið. Að við skulum vera, eins og ég sagði áðan, í þjóðfélagi þar sem við erum að láta fólk bíða í röðum eftir mat og að við skulum vera í þjóðfélagi þar sem við erum með ákveðinn hóp fólks sem getur ekki bjargað sér og hefur misst allt sitt vegna atvinnuleysis eða af því að það veikist eða bara af því það verður eldri borgari og dettur á eftirlaun. Það er ömurlegt að við skulum vera í þessari stöðu af því að við getum gert svo miklu betur. Við getum það með þeim skattpeningum sem við tækjum af lífeyrissjóðunum vegna þess að þá er öruggt að þeir komi til góða nú og hjálpi fólki núna. Við vitum ekkert hvað verður í framtíðinni. Við vitum hvað varð um bótasjóð Sjóvá, hann hvarf. Hann lenti á Cayman-eyjum eða Tortólu, endaði sem lúxusíbúð í Kína og kom svo til baka og endaði á botninum á sundlauginni á Álftanesi sem veð. Hann hvarf. Þarna hurfu ekki bara lífeyrisgreiðslur og annað heldur líka bætur þeirra sem höfðu lent í tjóni. Þannig að við vitum að við eigum að varast þetta og þess vegna eigum við að sjá til þess að minnka þetta fjármagn vegna þess að það er ekki eðlilegt hvað þetta er orðið mikið. Þetta er allt of mikið fyrir lítið hagkerfi, það sem lífeyrissjóðirnir eru. Ég hef enga trú á öðru — kannski er það bara vegna hagsmuna þess í lífeyrissjóðunum sem ASÍ er á móti þessu — en ég held að ef verkalýðsfélögin kynntu sér virkilega vel málin og sæju í hvað ætti að nota peninginn væru þau ekki á móti þessu. Er verkalýðshreyfingin ekki tilbúin til þess að láta fólk fá 350.000 kr. skatta- og skerðingarlaust útborgað, sem eru lágmarkslaun í landinu? Er hún sammála því að það eigi að skatta þau laun? Er hún sammála því að ef fólk fer á eftirlaun þá eigi það að lifa í fátækt, eymd og volæði, ákveðinn hópur, en aðrir eigi að hafa það rosalega gott? Ég hef enga trú á því að svo sé. Er það eðlilegt samfélag þar sem við erum með heilbrigðiskerfi þar sem börn þurfa að fara á biðlista til að komast á biðlista? Er alveg eðlilegt að við séum með heilbrigðiskerfi þar sem eldri borgarar sem þurfa að komast á hjúkrunarheimili þurfi að fara á biðlista til að komast á biðlista? Hvers lags kerfi er þetta sem við erum að berjast við?

Við erum með fullt af peningum þarna úti sem ríkið á sem skattgreiðslur, yfir 2.000 milljarða nú þegar í lífeyrissjóðakerfinu, og 80 eða jafnvel 100 milljarðar sem við gætum náð út ef við skattleggjum inngreiðslurnar. Þetta er það sem við eigum að gera. Við eigum að koma hlutunum í lag í dag. Það er enginn tilgangur með því að valda fólki stórtjóni í dag upp á það að hægt væri að gera eitthvað með þessa peninga í framtíðinni sem við höfum ekki hugmynd um að verði nokkurn tíma.

Þess vegna segi ég bara: Þessi þingsályktunartillaga okkar er frábær og á það ekki skilið að ekki skuli vera fleiri hérna í salnum að taka undir með okkur. Líka í því ljósi að nú er Covid að auka skattbyrði ríkisins um 600, 700, 800 milljarða, við vitum ekki hversu margir milljarðar það verða, og við gætum svo auðveldlega komið hlutunum í lag með þessu.