151. löggjafarþing — 58. fundur,  23. feb. 2021.

breyting á ýmsum lögum vegna okurs á tímum hættuástands.

148. mál
[15:22]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf):

Virðulegur forseti. Nú erum við að fjalla um frumvarp til laga frá flokki Flokki fólksins um breytingu á ýmsum lögum vegna okurs á tímum hættuástands. Við erum sem betur fer og vonandi á seinustu skrefum Covid-19 faraldursins sem hefur skollið á okkur með svo eftirminnilegum hætti og eiginlega haldið okkur í heljargreipum í rúmt ár.

Við vissum að ástandið væri alvarlegt. Flokkur fólksins tók strax þá stefnu í upphafi faraldursins að þarna væri um alvarlega hluti að ræða sem þyrfti virkilega að taka alvarlega. Við bentum á ýmsar leiðir í því samhengi eins og, sérstaklega eftir fyrstu bylgjuna, að taka á gæslu á landamærunum og hleypa veirunni ekki inn. Því miður var ekki hlustað á það heldur var sú sýn sem við höfðum og síðan reyndist rétt höfð að háði og spotti.

Við höfum líka rekið okkur á að í upphafi áttu grímur ekki upp á pallborðið. En það gjörbreyttist. Við höfðum enga hliðstæðu á því ástandi sem kom upp, að við skyldum þurfa að fara að spritta okkur og þvo okkur algjörlega út í eitt. Eiginlega snerist bara samfélagið um að spritta sig og þvo sér og síðan komu grímurnar. Við tókum eftir að í því ástandi varð skortur á ákveðnum hlutum og þar á meðal voru grímur og spritt. Þá rauk verðið upp og það er eiginlega sorglegt til þess að vita að það hafi skeð í svona ástandi. Auðvitað á ekki að vera þörf á að setja svona lög. Þegar svona ástand kemur upp eiga stjórnvöld auðvitað að grípa inn í. Þau eiga hafa lagagrundvöll til að taka á hlutunum og sjá til þess að þeir sem þurfa, og sérstaklega þeir sem verst standa í þjóðfélaginu, hafi efni á og geti reddað sér nauðsynlegum hlutum eins og grímum og sóttvörnum sem þörf er á á hverjum tíma.

Við vitum líka að ástandið var þannig á þessum tíma að þeir sem höfðu það verst og höfðu minnst handanna á milli einangruðust bara heima. Þeir voru bara í mjög slæmum málum. Málin voru jafnvel það slæm að fólk þorði ekki einu sinni út. Þar af leiðandi var fólk heima í því ástandi að geta ekki farið í verslun og líka vegna þess að það hafði ekki grímu og hafði ekki þá hluti sem til þurfti. Einnig var það fast heima og gat ekki einu sinni nýtt sér þau úrræði að panta vörur í gegnum netið til að redda sér. Það er ömurlegt til þess að hugsa að einhver skuli hafa þurft að vera í því ástandi á Íslandi. Svona hluti verðum við að læra. Við verðum að sjá til þess að ef við eigum von á einhverju svona aftur, eins og þeir segja sérfræðingarnir, þá eigum við að vera tilbúin og búin að sjá til þess og vera með alla varnagla svo að þeir sem verst standa í þessu þjóðfélagi fái hjálp og það samstundis.

Það sló mig líka þegar ég las frétt um vöruverð að vörur skyldu að meðaltali vera 48% dýrari í verslunum ef þær voru í fámennum byggðarlögum. Þetta er gífurlegur verðmunur, alveg gífurlegur verðmunur. Sérstaklega myndi ég segja að þetta væri alveg skelfilegt verð fyrir þá sem verst standa, eru kannski á lægstu launum og eiga jafnvel að lifa af lágmarksellilaunum eða örorkulífeyri, að fólk skuli búa við það ástand að matarkarfan sem kostar 10.000 kr. í lágvörubúð á höfuðborgarsvæðinu kosti nær 15.000 á þessum stöðum.

Þetta bara sýnir okkur svart á hvítu hversu fljótt það gerist að setja ákveðinn hóp fólks í þann vanda að geta ekki einu sinni framfleytt sér. Við vitum líka að þannig er ástandið hjá eldri borgurum sem eru á lágmarkslaunum og hjá öryrkjum. Þeir hafa kannski síður farartæki til að komast þangað sem þeir fá hagstæðustu kjörin og eru þar af leiðandi fastir í fátækt sinni og þeirri eymd sem ríkisstjórn eftir ríkisstjórn hefur sett þennan hóp í. Þess vegna er algerlega á hreinu að við verðum að fara að hugsa öll þessi kerfi upp á nýtt. Besta leiðin í því væri auðvitað að samþykkja frábær lagafrumvörp og þingsályktunartillögur sem Flokkur fólksins hefur lagt fram. Ef það hefði verið þá væri bara gjörbreytt aðstaða hjá þessu fólki og fólk væri á allt öðrum stað til að takast á við það sem upp á kemur og þau vandamál sem fylgja í kjölfar svona farsóttar.

En ég ætla ekki að hafa mál mitt miklu lengra. Eins og ég segi er þetta hið besta mál. Við verðum að hafa það á hreinu að þegar hætta steðjar að þá höfum við góð frumvörp og góð lög og reglur til að takast á við vandamálið þannig að enginn þurfi að falla á milli skips og bryggju, enginn þurfi að fara í stofufangelsi heima hjá sér, enginn þurfi að svelta og enginn geti ekki komist út úr húsi vegna þess að hann hefur ekki efni á að fá nauðsynlegar græjur sem til þarf. Þá þurfum við líka að tryggja að fólk hafi alla vega framfærslu til að geta pantað vörur þannig að fólk fái þær sendar heim en þurfi ekki að vera algerlega í einangrun.