151. löggjafarþing — 58. fundur,  23. feb. 2021.

mat á umhverfisáhrifum.

156. mál
[15:39]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf):

Virðulegur forseti. Frumvörp Flokks fólksins og þingsályktunartillögur renna á færibandi í gegnum þingið. Við mælum fyrir enn einu frumvarpinu, um breytingu á lögum um mat á umhverfisáhrifum, með síðari breytingum, um vatnsorkuver og vindbú. Þetta er hið besta mál. Við verðum að átta okkur á því að við erum ekki á góðum stað í umhverfismálum. Við sjáum og verðum vör við það núna, eins og börn okkar og unglingar hafa bent á, bæði hér og um allan heim, að við höfum gengið illa nærri náttúrunni og jafnvel skemmt möguleika framtíðarkynslóða á lífvænlegu umhverfi. Það er mikil þörf á að taka allt svona til gaumgæfilegrar athugunar og við eigum og verðum að fara að setja náttúruna og náttúruvernd í fyrsta, annað, þriðja og fjórða sæti. Við verðum að hætta að vera einir mestu umhverfissóðar í heimi, gyrða okkur í brók og fara að taka til. Þetta frumvarp er liður í því.

Ég varð eiginlega orðlaus þegar ég sá ákall frá lítilli eyju við Noreg þar sem var allt í einu verið að setja upp vindmyllugarð. — Það kom allt í einu rautt ljós á mig, ég hélt kannski að ég hefði sagt eitthvað sem varð þess valdandi að ég fékk rauða spjaldið, það er kannski of djúpt í árinni tekið að gefa manni rauða spjaldið í umræðu um umhverfismál en ég skal bara virða það. — En ég var að tala um litla eyju við Noreg þar sem allt í einu var verið að setja upp rosalegan vindmyllugarð og ákall kom frá íbúum vegna þess að þeir voru búnir að átta sig á því að þetta hefði gífurleg áhrif á allt samfélagið. Þeir voru líka búnir að átta sig á að þær tölur sem voru gefnar upp um hversu góð áhrif þetta myndi hafa á samfélagið voru langt frá því að vera réttar. Þeir bentu á það að annars staðar í Noregi þar sem höfðu verið settir upp svona garðar voru afleiðingarnar skelfilegar. Fugladauði var alveg gífurlegur. Ernir og fleiri tegundir fugla dóu í hrönnum við það að lenda í spöðunum á vindmyllunum. Ef slíkt er okkur ekki víti til varnaðar þá veit ég ekki hvað það er. Við eigum ekki að leyfa okkur að setja upp eitthvað til að framleiða rafmagn fyrir okkur, sem við þurfum jafnvel ekki á að halda, og gera það á þann hátt sem veldur fuglalífi stórkostlegu tjóni. Það á aldrei að vera í boði. Og heldur ekki að virkja núna bara af því að einhverjum dettur það í hug, að það sé í lagi að hafa bara litla virkjun, 9,99 MW eins og kom fram, því að þá þarf hún ekki að fara í umhverfismat. Við eigum einhvern tímann að setja upp gagnrýnisgleraugun og rýna vel í hlutina, setja strangar reglur og sjá til þess að farið sé eftir öllum þeim þáttum sem þarf á að halda til þess að náttúran njóti vafans í svona málum.

Við stöndum okkur ekki nógu vel og þess vegna styð ég frumvarpið heils hugar. Ég vona heitt og innilega að það fari í gegn en reikna nú ekki með því. Eins og kom fram hjá hv. þm. Ara Trausta Guðmundssyni er hann líka með frumvarp sem er með aðeins hærri tölur en það breytir ekki höfuðmáli. Ef frumvarp okkar kemst ekki áfram gerir frumvarp hans það vonandi, hann á kannski meiri mögulega sem stjórnarþingmaður. Miðað við stefnu Vinstri grænna ætti að vera þarna grundvöllur fyrir þá til að taka þátt í þessu. Ég get ekki ímyndað mér annað en að þetta sé í þeirra anda og held að þeir séu algerlega sammála því að þarna eigi náttúran að njóta vafans.

Við erum í þeirri stöðu í dag að nær væri ef okkur vantar orku að huga að því hvernig við getum unnið á orkufrekum iðnaði, minnkað orkuþörf til þeirra sem menga mest, hugsa það þannig. Við eigum alltaf að passa okkur á því, og verðum að gera það héðan af, að náttúran fái að njóta vafans. Það er gott upp á framtíðina og það er það sem börn og unglingar gera kröfu um, því að framtíðin er þeirra. Okkur ber að reyna að koma umhverfismálum í gott horf, helst þannig að þau taki við náttúrunni í betra ástandi en við tókum við henni, þótt það sé reyndar mjög ólíklegt, en alla vega ekki í verra ástandi.