151. löggjafarþing — 58. fundur,  23. feb. 2021.

fullur aðskilnaður ríkis og kirkju og ný heildarlöggjöf um starfsemi trú- og lífsskoðunarfélaga.

178. mál
[17:22]
Horfa

Kolbeinn Óttarsson Proppé (Vg):

Forseti. Ég ætlaði ekki að taka til máls í þessu máli því að ég hafði sannast sagna einfaldlega áhuga á því að skilja hvað hv. þingmanni og fyrsta flutningsmanni fyndist um þessi mál. En mér finnast svör hv. þingmanns kalla á að ég komi hér upp, sérstaklega einhver furðuleg orð um að þetta sé jafnvel of flókið til að ég skilji þetta. Ég hef ekki gert neitt í minni aðkomu að þessu máli núna ár eftir ár annað en að spyrja sömu einföldu spurningarinnar: Ef það er í lagi að fara ekki eftir einni spurningu af þeim sex sem voru til hliðar í þjóðaratkvæðagreiðslunni árið 2012, er þá líka í lagi að fara ekki eftir hinum fimm? Er þá líka í lagi að fara ekki eftir stóru spurningunni sem var undir í þeirri þjóðaratkvæðagreiðslunni, þ.e. um drög stjórnlagaráðs? Ég hef tekið það fram í hvert einasta skipti að ég sé efnislega sammála málinu, ég hef alltaf tekið það fram ár eftir ár að ég sé aðeins að kalla eftir þessari afstöðu og samkvæmni. Ég hef alltaf lýst furðu minni á því að bæði sé hægt að segja: Við verðum að virða niðurstöðuna frá 2012, en líka segja að við verðum að hunsa niðurstöðuna frá 2012. Í mínum huga verður ekki bæði sleppt og haldið.

Ef við höldum þjóðaratkvæðagreiðslunni frá 2012 á lofti og segjum að hana verðum við að virða og sleppum öllum ódýrum skotum á stjórnvöld áranna á milli eða þær fjölmörgu ríkisstjórnir sem setið hafa, bæði núverandi ríkisstjórn, sem ég er aðili að, og síðustu ríkisstjórn sem hv. fyrsti flutningsmaður var aðili að, sleppum því öllu. Ef við segjum að við verðum að virða hana þegar kemur að einni spurningunni þá finnst mér við ekki samkvæm sjálfum okkur ef við setjum nafn okkar við mál sem segir beinlínis: Það er í lagi að hunsa sömu þjóðaratkvæðagreiðslu. Þá erum við að láta eigin skoðun trompa niðurstöðu þjóðaratkvæðagreiðslunnar. Þá erum við að velja úr henni það sem hentar okkur í okkar málflutningi. Það þykir mér ekki góð pólitík, forseti.

Að því sögðu styð ég að þessi tillaga fái áfram þinglega meðferð og vonast til að við verðum meira samkvæm sjálfum okkur en mér finnst við vera hér í íslenskri pólitík.