151. löggjafarþing — 58. fundur,  23. feb. 2021.

undirritun og fullgilding samnings Sameinuðu þjóðanna um bann við kjarnorkuvopnum.

186. mál
[18:05]
Horfa

Flm. (Steinunn Þóra Árnadóttir) (Vg):

Frú forseti. Ég mæli hér fyrir þingsályktunartillögu um að Ísland gerist aðili að samningi Sameinuðu þjóðanna um að banna kjarnorkuvopn. Meðflutningsmenn mínir á þingsályktunartillögunni eru hv. þm. Kolbeinn Óttarsson Proppé, Ari Trausti Guðmundsson og Ólafur Þór Gunnarsson.

Tillagan sjálf er stutt en hún hljómar svo, með leyfi forseta:

„Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni fyrir Íslands hönd að undirrita og fullgilda samning um bann við kjarnorkuvopnum sem samþykktur var á ráðstefnu Sameinuðu þjóðanna í New York 7. júlí 2017.“

Þetta mun vera í fimmta sinn sem ég flyt þessa tillögu. Sú breyting hefur þó orðið síðan ég mælti síðast fyrir þessu máli að 22. janúar síðastliðinn tók samningurinn gildi. Það gerðist þegar 90 dagar voru liðnir frá því að fimmtugasta þjóðþing heimsins hafði fullgilt samninginn. Í dag er því um að ræða alþjóðasamning sem er fullgildur að alþjóðalögum.

Aðdragandi samningsins er sá að árið 2016 ákvað fjöldinn allur af kjarnorkuvopnalausum ríkjum að reyna nýja nálgun í baráttunni gegn þessum skelfilegu vopnum. Samtökin ICAN hafa þar verið fremst meðal jafninga og hlutu raunar friðarverðlaun Nóbels árið 2017 fyrir baráttu sína. Líkt og segir í rökstuðningi norsku Nóbelsnefndarinnar áttu samtökin stærstan þátt í að leiða saman þjóðir heims og undirbúa gerð þessa mikilvæga sáttmála. Á fimmta hundrað friðarhópar og félagasamtök um víða veröld standa saman að ICAN-samtökunum.

En svo að við rifjum upp nokkur grundvallaratriði varðandi stöðuna í kjarnorkuvopnamálum í heiminum þá eru níu ríki sem eru skilgreind sem kjarnorkuríki eða kjarnorkuveldi og þau eiga yfir 13.000 kjarnorkuvopn eða -sprengjur. Eldri afvopnunarsamningar gera ráð fyrir því að kjarnorkuveldin muni með tímanum minnka vopnabúr sín og vinna að útrýmingu vopnanna. Það hefur þó ekki gengið eins og væntingar stóðu til. Þvert á móti hafa einstök ríki, og þar á meðal hernaðarbandalagið NATO, haft kjarnorkuvopn sem hluta af hernaðarstefnu sinni. Því miður hefur ýmsum mikilvægum samningum sem hafa verið eins og vörður á leið til kjarnorkuafvopnunar ekki verið fylgt eftir og þeim hefur jafnvel verið sagt upp. Það gerir þennan samning hér enn mikilvægari. Kjarnorkusprengjum hefur að sönnu fækkað frá því þegar þær voru flestar. En það sem hefur gerst er að þær hafa stækkað og þær hafa orðið fullkomnari þannig að sprengjumáttur þeirra hefur stóraukist. Þær hræðilegu kjarnorkusprengjur sem heimurinn hefur þó kynnst og hefur reynslu af eru litlar í samanburði við a.m.k. sum þau vopn sem nú er verið að þróa. Flest kjarnorkuveldin eru jafnframt að veita svimandi háar upphæðir til þróunar á nýjum og fullkomnari vopnum og sú hugmynd að hægt sé að nota slík vopn, sem stundum eru kölluð taktísk kjarnorkuvopn, í almennum hernaði er því miður rædd af sífellt meiri alvöru, í það minnsta í sumum kreðsum. Við erum sem sagt í alvörunni þar stödd að kjarnorkuógnin fer aftur vaxandi.

Stundum ber á því viðhorfi þegar rætt er um þennan samning að hann hljóti að vera andvana fæddur þar sem kjarnorkuveldi veraldar hafa enn sem komið er neitað að koma að honum. Þar er hins vegar um misskilning að ræða. Fyrirmynd þessa sáttmála er einmitt fengin frá öðrum afvopnunarsáttmálum á borð við jarðsprengjubann Sameinuðu þjóðanna, bann við klasasprengjum og bann við efnavopnum. Í tilviki þeirra samninga voru það ríki og ríkjahópar sem ekki höfðu yfir slíkum vopnum að búa sem drógu vagninn og knúðu í gegn slík alþjóðleg bönn í hreinni andstöðu við þau ríki sem vopnin áttu. Í öllum tilvikum hefur tilkoma hins alþjóðlega banns þó haft þær afleiðingar að vopnunum var útskúfað og notkun þeirra og framleiðsla talin siðferðilega óverjandi. Þetta mun einnig gerast varðandi kjarnorkuvopnin.

Frú forseti. Ég gat þess að sáttmáli um að banna kjarnorkuvopn hafi tekið gildi fyrir um mánuði þegar tiltekinn tími var liðinn frá því að fimmtugasta ríkið hafði fullgilt hann á þjóðþingi sínu. Síðan þá hafa fjögur lönd í viðbót bæst í hópinn. Rúmlega 30 lönd til viðbótar hafa svo undirritað sáttmálann en eiga eftir að stíga seinna skrefið í ferlinu og fullgilda hann. Stöðugt bætist í hóp þessara landa enda stóð mikill meiri hluti aðildarríkja Sameinuðu þjóðanna að samningu sáttmálans. Mikill meiri hluti segi ég en þó ekki öll ríkin. Hópur ríkja sem hefur yfir kjarnorkuvopnum að búa og fylgiríki þeirra hafa staðið gegn samningnum, þeirra á meðal eru aðildarríki hernaðarbandalagsins NATO. Enn sem komið er hefur reynst erfitt að rjúfa þennan andstöðumúr NATO gegn sáttmálanum. Þó eru nokkur lönd í heimshluta okkar sem eru aðilar að honum og ég vil nefna þau. Það eru Írar, Austurríkismenn og Maltverjar auk Liechtensteins, San Marínó og Páfagarðs.

Hæstv. forseti. Í tengslum við gildistöku samningsins um að banna kjarnorkuvopn kynntu samstarfsaðilar ICAN á Íslandi, sem eru m.a. Mannréttindaskrifstofa Íslands og Rauði krossinn, niðurstöður könnunar sem þeir létu gera í nokkrum löndum. Hvað varðar Ísland er meginniðurstaðan sú að 86% aðspurðra Íslendinga sögðust styðja að Ísland gerðist aðili að sáttmálanum um að banna kjarnorkuvopn en einungis 3% voru því andvíg. Rétt um 10% sögðust ekki vera viss. Nú kynni einhver að velta því fyrir sér hvort þessi mikli stuðningur skýrist af því að almenningur viti lítið um sáttmálann um að banna kjarnorkuvopn og geri sér ekki grein fyrir því að samþykkt hans kynni að hafa einhverjar afleiðingar. En til að bregðast við slíkum vangaveltum var framhaldsspurning þar sem fólk var spurt, eftir að það hafði gefið upp afstöðu sína til þess hvort það vildi að við yrðum aðilar að samningnum, hvort það vildi að Ísland yrði í hópi fyrstu aðildarríkja NATO til að undirrita sáttmálann þó svo að slíkt kynni að verða til þess að Bandaríkjastjórn myndi beita landið einhvers konar þrýstingi. Niðurstöður þeirrar spurningar eru sérlega áhugaverðar því að þær leiddu í ljós að hjá sumum, og þá sérstaklega stuðningsmönnum sumra flokka, sem höfðu stutt að Ísland gerðist aðili að samningnum hélst stuðningurinn óbreyttur en hjá öðrum minnkaði hann lítillega, einkum þar sem óákveðnum fjölgaði. Hjá kjósendum Sjálfstæðisflokksins þar sem andstaðan var mest vildu engu að síður 57% aðspurðra gerast aðilar að samningnum. Það er því afgerandi meiri hluti landsmanna með því að Ísland verði aðili að samningi um að banna kjarnorkuvopn. Ég hef því ástæðu til að ætla að stuðningur við þetta mál sé mikill, hann er það greinilega meðal almennings og ég held að afstaðan hér á þingi geti verið í samræmi við það. Ég vil einnig minna á að 25 þingmenn hafa skrifað undir heit eða loforð þess efnis að vinna að því að kjarnorkuvopn verði bönnuð. Það er hægt að kynna sér hverjir þessir þingmenn eru á heimasíðu ICAN.

Frú forseti. Vitaskuld á Ísland að vera aðili að slíkum samningi. Það þýðir ekkert að segja á tyllidögum að við séum friðelskandi og herlaus þjóð en leggja svo ekki okkar af mörkum þegar kemur að því að banna illræmdustu vopn sem fundin hafa verið upp. Ég vil með þeim orðum ljúka ræðu minni. Ég legg til að að þessari umræðu lokinni verði málinu vísað til hv. utanríkismálanefndar og síðari umr.