151. löggjafarþing — 58. fundur,  23. feb. 2021.

undirritun og fullgilding samnings Sameinuðu þjóðanna um bann við kjarnorkuvopnum.

186. mál
[18:19]
Horfa

Kolbeinn Óttarsson Proppé (Vg):

Forseti. Það er ekki reykingamaðurinn sem ákveður hvort hann reyki í fermingarveislunni eða ekki. Það er ekki eigandi sportbílsins sem ákveður hvort hann keyri um á 200 km hraða á göngugötum. Það er ekki eigandi haglabyssunnar sem ákveður hvort hann gangi með hana hlaðna og hættulega um götur borgarinnar eða götur landsins. Og það eiga ekki að vera kjarnorkuvopnaríkin sem ákveða hvort þau eigi vopn sem geta eytt öllu lífi á jörðinni og jörðinni sjálfri.

Þetta er afskaplega einfalt. Þetta er mál sem snertir okkur öll og það getur enginn með góðri samvisku sagst vera á móti því að við bönnum tól sem hafa þann eina tilgang í sameiginlegum mætti sínum að eyða öllu lífi á jörðinni.

Ísland á að vera í fararbroddi í því að berjast gegn kjarnorkuvopnum. Ég vildi óska þess að ríkisstjórn Íslands tæki málið til sín og stigi það skref að skrifa undir og staðfesta þennan sáttmála eins og hér er lagt til að við gerum. Ég vildi óska þess að við værum ekki aðilar að hernaðarbandalagi, en því miður eru aðrir flokkar en sá sem ég og hv. flutningsmenn tilheyrum, ekki á þeirri skoðun. Við hljótum öll, sem búum hér efst uppi á hnettinum í viðkvæmu umhverfi norðurslóða, að geta sammælst um að stíga þessi skref sem nauðsynleg eru til að tryggja öryggi okkar allra hér á jörð. Eitt er ógnin sem af vopnunum sjálfum stafar. Annað er kolefnissporið sem framleiðsla þeirra og tilvist býr til, mengunin sem fylgir þeim. Það er ekki hægt að tala í einu orðinu um að við þurfum að berjast gegn loftslagsvá og hamfarahlýnun án þess að vera á móti hernaðaruppbyggingu og hvað þá tilvist kjarnorkuvopna.

Forseti. Ég vona innilega að þurfum ekki svona tillögur í framtíðinni. Ég vona innilega að íslensk stjórnvöld geti stigið þau skref sem þarf að stíga til að setja okkur í fararbrodd í þessum efnum, að berjast gegn stórhættulegum vopnum sem geta eytt öllu lífi. Þetta á ekki að vera sérstaklega flókið. Ég hvet ríkisstjórnina til að stíga fram og skrifa undir samninginn. Ef ekki þá höfum við þessa tillögu hér sem hægt er fara með hina hefðbundnu leið og ég hvet hv. Alþingi til að stíga þau skref ef með þarf.