151. löggjafarþing — 59. fundur,  24. feb. 2021.

störf þingsins.

[13:20]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf):

Virðulegur forseti. Þú ert nr. 1.200, nei 1.300, nei 1.500, á bið. Hversu mörg börn með geðheilbrigðisvandamál eru á biðlista eftir úrræðum í dag? Fyrir áramót biðu 1.193 börn um allt land eftir greiningu eða meðferð við geðrænum eða sálrænum vanda. Við látum börn með geðræn vandamál bíða, ekki bara mánuðum saman heldur árum saman. Eins og við vitum eru geðraskanir ein helsta orsök örorku og því fer ekki á milli mála að hana ber að meðhöndla strax hjá börnum og unglingum. En hvað gerist? Fólk fær jafnvel samband við símsvara sem gefur stundum villandi möguleika. Ef til vill verður fljótlega komið á símsvara fyrir þá sem eru á biðlista eftir aðgerðum á Íslandi. Vélræn rödd svarar: Ef þú ert með Covid-19, ýttu á takka 1. Þú ert í forgangi. Ef þú ert barn á biðlista, ýttu á takka 2, þú ert ekki í forgangi. Ef þú ert að bíða eftir lífsnauðsynlegri aðgerð, ýttu á takka 3 og þér verður sagt hvar þú ert á 200 manna biðlista. Ef þú ert á biðlista til þess að komast á annan biðlista, ýttu á takka 4 og bíddu þar þangað til röðin kemur að þér. Símsvarinn heldur áfram og segir: Ef þú vilt tíma í sjúkraþjálfun eða tíma hjá talmeinafræðingi eru langir biðlistar þar og vegna reglugerðarbreytinga hafðu samband eftir tvö ár.

Fólk er sent frá Heródesi til Pílatusar í tilgangsleysi í stað þess að fá hjálp. Ef veiku fólki fjölgar jafnt og þétt á biðlistum og ekkert verður gert, verður það dýrkeypt til framtíðar fyrir börnin og unglingana, veika fólkið, eldri borgara, fjölskyldur og samfélagið allt. Það er nánast enginn stuðningur eða úrræði í boði fyrir þann ótrúlega stóra hóp fólks sem elst upp hjá foreldrum með geðrænan vanda og ofbeldi. Það hefur komið í ljós að andlegt og líkamlegt ofbeldi gegn börnum hefur aukist í Covid-19 faraldrinum, sem gerir þörf á góðri og skjótri heilbrigðisþjónustu fyrir börn lífsnauðsynlega.

Virðulegur forseti. Eins og segir í ljóðinu Bið: Dagur líður og vonleysistilfinning grá, hve lengi er lífið að líða þegar þú þarft að sitja og bíða?