151. löggjafarþing — 59. fundur,  24. feb. 2021.

fjármálafyrirtæki.

7. mál
[14:30]
Horfa

Smári McCarthy (P):

Frú forseti. Við ræðum hér um svokallaða varnarlínu í fjárfestingarbankastarfsemi. Það er kannski þess virði að byrja á því að nefna að varnarlína er, alla vega í mínum huga, fótboltahugtak og maður þarf ekki að horfa á marga fótboltaleiki til að sjá að varnarlínur bresta ansi oft. Að ætla sér að setja upp það sem sumir hafa kallað kínverskan vegg eða skilrúm milli tveggja þátta í starfsemi fyrirtækis eru í raun einhvers konar pólitískir galdrar, tilraun til þess að veifa hendinni þannig að hlutirnir líti út fyrir að vera öðruvísi en þeir eru. Í grunninn felur frumvarpið í sér að sama stjórn fari með sömu peninga innan sömu stofnunar og geri jafn hættulega hluti og áður, en að einhvers staðar verði varnarlína, sem muni kannski bresta og kannski ekki, sem muni nægja til að réttlæta að nú sé búið að tryggja að hlutirnir fari ekki til fjandans, eins og þeir hafa jú stundum gert.

Fyrr í þessari umræðu, þ.e. í umræðunni um aðskilnað milli fjárfestingar- og viðskiptabankastarfsemi, var einmitt talað um aðskilnað. Ég held að ríkisstjórn Íslands sé haldin smáaðskilnaðarkvíða og vilji frekar útvatnaða og takmarkaða útgáfu til málamynda af þessum aðskilnaði, sem lítur í raun vel út á meðan enginn horfir of náið á það, miklu frekar en raunverulegan aðskilnað, sem er ekki svo rosalega róttæk hugmynd. Hér eru lögð til takmörk á því hversu mikinn hluta af eiginfjárgrunni megi fjárfesta, 15%, en það er töluverð upphæð af eiginfjárgrunni íslenskra banka. Það er því alveg spurning hvort það sé raunverulegur skaði, verulegur skaði, fyrir þessar stofnanir, t.d. fyrir fjárfestingarbanka, að þurfa að sætta sig við fullan, bókhaldslegan aðskilnað, stofnanalegan aðskilnað, jafnvel hreinlega að viðskiptabanki væri í eigu fjárfestingarbankans en samt aðskilinn frekar en að vera rekinn nokkurn veginn með hinum. Í praxís er einhver aðskilnaður, þetta er innan sömu samstæðu o.s.frv., eins og við sjáum mörgum tilfellum, en þetta er samt innan sömu samstæðu og þetta fer saman.

Hvað er að því að aðskilja þetta? Mér hefur heyrst vera tilhneiging til að láta eins og það sé rosalega róttæk hugmynd að tryggja að mikil áhættuviðskiptastarfsemi innan fjárfestingarbanka og álíka sé aðgreind fá almennum viðskiptabankastörfum sem snúa t.d. að sparnaði og inneign og í mörgum tilfellum lánalínum einstaklinga úti í samfélaginu sem er, ólíkt fjárfestingarbankastarfsemi, varin af seðlabanka, varin af innstæðutryggingarsjóði og varin af ýmsum mekanismum sem eiga að tryggja að þegar hlutir fara til fjandans, eins og þeir eiga til að gera, komi áhættusama fjárfestingarstarfsemin ekki niður á almenningi nema þeim hluta almennings sem hefur af fúsum og frjálsum vilja, yfirleitt þokkalega upplýstur, ákveðið að taka ákveðna áhættu. Ég vil meina að það sé róttækt að aðskilja þetta ekki.

Ef við horfum á söguna þá var á 20. öldinni aðskilnaður á fjárfestingar- og viðskiptabönkum í 66 ár í einu stærsta og valdamesta kapítalistaríki mannkynssögunnar. Þess ber að geta að stuttu eftir að þessi aðskilnaður var afnuminn þar hrundi kerfið í því landi. Hvort það er tilviljun eða ekki er erfitt að segja til um. En það er jú búið að skrifa þokkalega margar bækur um það þannig að ef einhver myndi lesa einhverjar þeirra væri hægt að sjá rök fyrir því að hafa alvöruaðskilnað.

Nú vill þannig til að fyrsta þingsályktunartillagan sem ég var meðflutningsmaður á, þegar ég kom inn á þing á sínum tíma, var einmitt þingsályktunartillaga núverandi hæstv. forsætisráðherra, Katrínar Jakobsdóttur, og annar flutningsmaður á því var hæstv. heilbrigðisráðherra Svandís Svavarsdóttir. Í þeirri tillögu var talað um almennilegan aðskilnað. Ég ætla að lesa úr greinargerð tillögunnar, með leyfi forseta, þar segir:

„Með því að blanda saman almennri bankastarfsemi og hinum áhættusækna fjárfestingarbankarekstri skapast hætta á að tjón vegna fjárfestinga sem farið hafa í súginn lendi á almenningi í stað þess að það hafni allt og óskipt hjá þeim sem gerðu hinar áhættusömu ráðstafanir.

Frá bankahruninu haustið 2008 hefur mikil og gagnrýnin umræða farið fram um starfsaðferðir bankanna í aðdraganda þess að þeir urðu gjaldþrota. Lagaramminn og regluverkið sem þeir störfuðu eftir hafa ekki síður orðið tilefni til gagnrýninnar umfjöllunar og endurskoðunar, enda ein meginástæða þess að bankarnir áttu þess kost að ráðast í áhættusamar fjárfestingar handan allra skynsemismarka og þenja út starfsemi sína í óviðráðanlegar stærðir. Einkum hefur verið fundið að því að innlán sparifjáreigenda, sem höfðu bakábyrgð frá ríkinu, skuli, bæði í viðskiptabönkum og sparisjóðum, hafa verið nýtt sem spilapeningar í glæfralegum fjárfestingum, m.a. í fyrirtækjum sem voru nátengd eigendum þessara sömu fjármálastofnana.“

Í greinargerðinni er farið stuttlega yfir sögu þessa aðskilnaðar í Bandaríkjunum með Glass-Steagall-lögunum, sem voru í gildi þar 1933–1999. Ýmislegt ágætt kemur fram þarna. En er kannski mikilvægast að við áttum okkur á því að talað hefur verið um að koma á almennilegum aðskilnaði alla vega í 11 ár. Kannski hafa einhverjir talað fyrir því fyrir þann tíma, en þrátt fyrir það hefur það ekki gerst. Nú kemur inn þessi málamyndatillaga sem er ekki endilega slæm en hún gengur bara ekki jafnlangt og þörf er á í ljósi þeirrar reynslu sem við búum að. Og það er ekki eins og þetta sé reynsla sem við þekkjum ekki af eigin raun, við vitum nákvæmlega hvernig þessi saga endar.

Ég hefði gjarnan viljað að við hefðum farið að þeim tillögum sem hæstv. forsætisráðherra lagði til fyrir örfáum árum áður en að það þótti heppilegt að fara í útvötnuðu útgáfuna, kannski vegna þess að það hentaði betur einhverjum samstarfsflokkanna. En eigum við samt að sætta okkur við að gera þetta vegna þess að það er betra en að gera ekkert? Er þetta „betra en ekkert“-ríkisstjórnin, frú forseti, eða er þetta kannski bara sýndarmennska? Ég óttast einmitt að það sé það síðara vegna þess að þetta er ekki betra en ekkert. Þetta er ekkert. Það væri þó mögulega hægt að gera örlítið meira en ekkert með því að samþykkja góðar breytingartillögur, bæði frá 1. og 2. minni hluta. Þá myndum við alla vega sjá þennan aðskilnað í rekstri sem kröfu. Þá myndum við lækka þröskuldinn niður í 10% af eiginfjárstöðu, sem er kannski ekki alveg nóg, og við myndum líka hafa möguleika á því að endurskoða þetta innan örfárra ára. Þetta eru liðir sem nota mætti til að gera þetta að byrjun á alvöruaðskilnaði. Hættan er til staðar. Hún verður áfram til staðar að óbreyttu og ég geld varhug við því að við förum að kalla þetta búið mál.