151. löggjafarþing — 59. fundur,  24. feb. 2021.

fjármálafyrirtæki.

7. mál
[14:47]
Horfa

Smári McCarthy (P) (andsvar):

Frú forseti. Ég verð að viðurkenna að ég var að vona að hv. þingmaður myndi a.m.k. reyna að færa einhverja réttlætingu fyrir því að þessi aðgerð skapi ekki áhættu innan CRD4-rammans. Þegar ég fer að hugsa út í það núna hefði það út af fyrir sig átt að vera uppistaðan í ræðu minni, bara það hvað klemman sem getur orðið er mögulega hættuleg. Það er ekki endilega alltaf hlaupið að því að losa um margra milljarða króna eignir á núll einni þegar það verður skyndileg þrenging.

Til að vera sanngjarn get ég alveg tekið undir það að vissulega voru margir að vinna að þessu af heilum hug (WÞÞ: Þetta var engin sýndarmennska.) — ég lít á þetta sem sýndarmennsku hjá ríkisstjórninni frekar en þeim sem unnu að þessu vegna þess að hér erum við að tala um ríkisstjórn sem hefur beinlínis í forsvari fyrir sig fólk sem hefur lagt til að fara miklu betri, skýrari og afdráttarlausari leið. Það að fara svona eitt skref þegar við gætum farið alla leið er kannski einhver ávinningur, en getum við ekki einu sinni gert hlutina almennilega? Við vitum að þetta getur verið hættulegt. Við höfum þess dæmi. Hvar vandamálið? Mér heyrist hv. þingmaður jafnvel vera sammála mér um það að einhverju leyti að það væri betra að gera þetta almennilega. Hvers vegna þurfum við alltaf, í hvert einasta skipti, að búa til einhvern afslátt? Og þegar við gáum betur að því hver grunnurinn er að þeim afslætti þá er það þannig að þeir sem eiga mikið undir því að geta spilað fjárhættuspil með eignir almennings vilja hafa þetta svona. Það er eina skýringin sem ég hef getað fundið. Ef aðrar skýringar eru til þá hlakka ég til að fá að heyra þær.