151. löggjafarþing — 59. fundur,  24. feb. 2021.

fjármálafyrirtæki.

7. mál
[14:49]
Horfa

Brynjar Níelsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á að fagna því að heyra formann fjárlaganefndar hækka róminn. Það gerist allt of sjaldan. En hv. þm. Smári McCarthy sagðist vonast til að hann hefði rangt fyrir sér eða hefði ekki rétt fyrir sér. Ég man að vísu ekki eftir því að hv. þingmaður hafi einhvern tímann haft rétt fyrir sér en það kann að gerast. Ég er hugsi eftir að hafa hlustað á ræðu hv. þm. Smára McCarthy, því að hann og allir í hans flokki, held ég, hafa skrifað og sagt opinberlega að við eigum að hlusta á sérfræðinga, að við vitum ekki allt og við kunnum ekki allt. Nú hafa sérfræðingarnir unnið þetta mál mjög lengi og eru allir á þeirri skoðun að ekkert vit sé í fullum aðskilnaði við íslenskar aðstæður á fjárfestingarbanka og viðskiptabanka. Það er aukinn kostnaður við það, aukið óhagræði. Það veikir bankana. Ég vil spyrja hv. þingmann: Eigum við algerlega að horfa fram hjá öllum sérfræðingum í þessu máli eða eigum við bara að hlusta á sérfræðinga þegar okkur hentar? Það er stóra spurningin.

Ég veit að menn komu með stjórnarskrá stjórnlagaráðs og lögðu hana aftur fram þó að allir sérfræðingar hefðu hafnað henni út og suður — þetta er annað umræðuefni, fyrirgefið forseti, en menn leggja hana bara aftur fram. Þessi sérfræðingaást og þetta sérfræðingablæti Pírata er greinilega bara einhvern veginn handvalið.