151. löggjafarþing — 59. fundur,  24. feb. 2021.

fjármálafyrirtæki.

7. mál
[14:51]
Horfa

Smári McCarthy (P) (andsvar):

Frú forseti. Ég get svo sem ekkert gert að því þótt hv. þingmaður sé hlynntur því að stunda kirsuberjatínslu, þ.e. að velja að hlusta á þá sérfræðinga sem eru honum sammála og hunsa alla hina. Ég get alveg nefnt sérfræðinga sem hafa talað fyrir fullum aðskilnaði, alveg fullt af þeim. Hér var t.d. í nefndaráliti 2. minni hluta vísað í Ragnar Önundarson sem kom með ágætispunkta inn í þetta. Við getum líka talað um breska hagfræðinginn John Kay sem hefur talað um svipaða hluti. Ég meina, hversu marga sérfræðinga þarf maður að draga fram áður en við getum a.m.k. fallist á að ekki séu allir sammála? Sömuleiðis varðandi stjórnarskrána. Hv. þingmaður segir að það sé enginn sérfræðingur sem styður þá gerð. Ég veit ekki betur en ansi margir sérfræðingar hafi gert það.

Sérfræðingablæti er eitthvað sem við verðum að passa okkur á en við verðum líka að passa okkur á því að fara ekki út í kirsuberjatínslu og velja bara að hlusta á fólkið sem er okkur sammála. Það er yfirleitt ekki góð ávísun. Það sem við þurfum að gera er að skoða öll rök með og á móti, mynda okkur afstöðu og taka afstöðu á þeim grunni frekar en að gera sér upp afstöðu og leita að rökum sem styðja hana.

Hér er staðreyndin einfaldlega sú að við höfum 66 ára reynslu af fullum aðskilnaði. Við höfum reyndar frá fyrri öldum dæmi um að takmarkaður aðskilnaður virki ekki. Við höfum líka nýleg dæmi um að takmarkaður aðskilnaður sé ekki að virka. Komdu endilega með alla sérfræðingana en berum líka saman niðurstöðurnar, berum saman söguna og berum saman raunveruleikann eins og hann kemur okkur fyrir sjónir. Á þeim grunni getum við kannski tekið upplýstar ákvarðanir.