151. löggjafarþing — 59. fundur,  24. feb. 2021.

stjórn fiskveiða.

231. mál
[15:40]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf):

Virðulegur forseti. Við fjöllum hér um frumvarp til laga frá Flokki fólksins um breytingar á stjórn fiskveiða, tilhögun strandveiða, frjálsar strandveiðar. Strandveiðar voru hér áður fyrr frjálsar. Fyrsta minning mín um frjálsar strandveiðar — þá er ég með afa mínum við spegilsléttan fjörð, Álftafjörð fyrir vestan; hann fór út á litlum róðrarbát til að ná í steinbít, þorsk og aðrar fisktegundir til að hengja upp í hjall, þurrka og búa til harðfisk. Ég held að ef hann, og þeir sem riðu á vaðið með strandveiðar hér við land, sæi það kerfi sem búið er að búa til í dag myndi honum bregða mikið. Sem unglingur fór ég á handfæraveiðar undir jökli á Snæfellsnesi þar sem ég varð í fyrsta skipti var við ufsa vaða í yfirborði sjávar eins langt og augað eygði; sjórinn ólgaði eins og hann væri að sjóða og aflinn var eftir því. Þar náðum við boltaþorskum, stórlúðu. Í minningunni var þetta ævintýri.

En því miður eru frjálsar strandveiðar ekki í boði og skynsamlegar strandveiðar eru ekki í boði. Það er eiginlega stórfurðulegt, ef maður fer að hugsa út í það, hversu langt stóri bróðir seilist í eftirliti sínu, að hann skuli segja: Heyrðu, það má ekki veiða nema 12 daga í mánuði og það má ekki veiða föstudaga, laugardaga og sunnudaga. Hver eru rökin fyrir þessu? Ég held að þau séu engin, það er ekki hægt að rökstyðja svona mikið bull. Ég hefði getað skilið ef sagt hefði verið að veiða mætti 12 daga í mánuði en ekki fara út þegar veður væri brjálað. Eða ef sagt hefði verið: Beitið heilbrigðri skynsemi og farið ekki út þegar veður eru válynd eða spár eru þannig. En það er stórfurðulegt að segja: Þú ferð ekki út að veiða föstudag, laugardag og sunnudag. Það er líka í þeim anda sem ríkisstjórn eftir ríkisstjórn hefur sett upp, sem er einhvern veginn mannfjandsamleg þeim sem vinna.

Þarna eru menn að leggja á sig ákveðna vinnu til að skapa verðmæti, nýta sjávarplássin allt í kringum landið. Ef við hugsum aðeins aftur í tímann, þegar erlend skip voru að veiða hér við Ísland, mokuðu upp hundruð þúsundum tonna. Þá var sagt að þegar þau færu myndi aflinn glæðast. Hvað hefur skeð síðan? Aflinn minnkar og minnkar og við erum líka komin í þá stöðu, með togveiðum og öðru, að ákveðnar tegundir, eins og rækja, humar, hafa verið að eyðileggjast. Við erum í þeirri stórfurðulegu stöðu að því afkastameiri og meira skemmandi veiðarfæri sem eru notuð því meira má veiða. Handfæraveiðar eru eiginlega vistvænustu veiðarnar af þessu öllu og ekki má gleyma því að svo til allur sá afli fer á markað. Ef eitthvað væri heilbrigt í því umhverfi sem við erum í væri það að gefa strandveiðar frjálsar.

Og hvers vegna? Jú, líka vegna þess að landsbyggð á í vök að verjast. Litlu þorpin eiga í vök að verjast. Þegar maður sér túristana fara um landið, koma í litlu sjávarbyggðirnar — ferskur fiskur beint í veitingahúsið. Þeir komast niður að höfn, sjá mannlífið í gangi, geta tekið myndir og séð í fyrsta skipti á ævinni smábáta koma að bryggju með spriklandi fisk. Nei, þetta má ekki gera vegna þess að stóri bróðir er búinn að ákveða það. Það má bara veiða 12 daga í mánuði, það er bannað föstudag, laugardag og sunnudag. Þeir spá ekkert í veðrið eða neitt annað, bara boð og bönn. Þetta er alveg eins og þegar sagt er: Eldri borgarar eiga að hætta að vinna sjötugir og ef þeir dirfast að vinna eru þeir bara skertir.

Þetta er stórfurðuleg nálgun. Við eigum að sjá til þess að strandveiðar verði stórauknar. Það var leyft að veiða 10.200 tonn 2018, það skiluðu sér ekki í land nema 9.396 tonn, um 804 tonn voru óveidd sem mér finnst alveg stórfurðulegt, enda var það örugglega tilgangurinn með þessum boðum og bönnum á föstudögum, laugardögum og sunnudögum og þessari 12 daga reglu. Þó að við myndum tvöfalda þennan afla og jafnvel þrefalda fyrir strandveiðibátana held ég að það hefði bara góð áhrif, bæði á byggðirnar og líka á fiskinn í sjónum. Ég held að strandveiðibátarnir séu þeir síðustu til að útrýma fiskinum í kringum landið en þeir gefa þessum litlu byggðum mest og þess vegna eigum við að gjörbreyta þessu kerfi.

Auðvitað verður það ekki gert því að ríkisstjórn eftir ríkisstjórn ver stóru útgerðirnar. Þær hafa völdin, þær hafa peningana, þær græða milljarða, borga 10 eða 20% af arðgreiðslum í veiðigjöld. Og hvað gera þær við peningana? Jú, kaupa sér völd, kaupa sér fjölmiðla, kaupa sér fyrirtæki, selja hin og þessi fyrirtæki, byggingarfyrirtæki, alls konar fyrirtæki. Á sama tíma er verið að taka af þeim sem búa — megnið af þessu fólki býr á þessu svæði og vill byggðunum sínum það allra besta en fær ekki að stunda veiðar. Það er með ólíkindum að við skulum vera í þeirri stöðu í dag að hafa hlutina svona furðulega.

Ég vonast heitt og innilega til að frumvarpið fari í gegn sem byrjun og síðan yrðu strandveiðar frjálsar. En ég efast um að það verði og eina leiðin til að svona hlutir breytist er að Davíð, í formi smábátaeigenda, sigri Golíat, stóru útgerðirnar sem eiga allt. Það er eina vonin að sú breyting geti átt sér stað. Ef fjórflokkurinn sem hingað til hefur haft völdin, séð og merkt þetta kerfi, heldur völdum áfram verður þetta allt óbreytt, því miður. En vonandi verður breyting.