151. löggjafarþing — 59. fundur,  24. feb. 2021.

starfskjör launafólks og skyldutrygging lífeyrisréttinda.

233. mál
[16:26]
Horfa

Brynjar Níelsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er enginn misskilningur eða vanlestur af minni hálfu. Það sem ég er bara að tala um er prinsippið, að menn ætli að hugsanlegar vanefndir — sem ég veit að eru auðvitað ekki miklar og þær eru bara vegna þess að menn geta ekki efnt. Það er ekki eins og það sé brotavilji. Þetta er bara prinsippið um að fara ekki að búa til viðurlög kringum vinnumarkað. Vinnumarkaðurinn er líka þannig samsettur að menn eru bara í verktöku, eru ekki launamenn í eiginlegum skilningi. Vilja Miðflokksmenn fara að beita viðurlögum ef þar eru vanefndir?

Ég held að þetta sé mjög vanhugsað, hv. þm. Birgir Þórarinsson. Ég veit alveg hverju verkalýðshreyfingin hefur kallað eftir. Hún hefur kallað eftir því að glæpavæða þennan markað. Þetta er bara aðför að hinu frjálsa samfélagi, kæri hv. þingmaður. Menn þurfa auðvitað að bera ábyrgð á öllum vanefndum, það skiptir engu máli hvort það er launamaður, atvinnurekandi eða eigendur fyrirtækjanna. Þess vegna eru dráttarvextir. Launamenn, umfram alla aðra, eru þó tryggðir af skattgreiðendum til að fá alltaf launin sín. Það á ekki við um alla aðra. Ég veit að kallað hefur verið eftir þessu frumvarpi og ég veit meira að segja að félagsmálaráðherra hefur lagt fram frumvarp á þessum nótum líka. Það er alveg jafn slæmt. Það getur vel verið öllum sé sama. Þetta er ekki mikið vandamál. Ég er bara að tala hér um prinsippin. Í guðanna bænum förum ekki í þann farveg að ríkisvaldið sé einhvern veginn umlykjandi og beiti refsivendinum og þvingunarúrræðum á frjálsum vinnumarkaði.